152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Upphaflega voru þetta m.a. andsvör út af vinnunni hér og skorti á þingmönnum meiri hlutans. Ég held líka að hluti af því sem spili þar inn í sé óvissa. Það er óvissa hjá þeim því að þau átta sig ekki á hvernig eigi að framfylgja fögrum fyrirheitum í stjórnarsáttmála. Meira að segja að ráðuneytin eru ekki alveg skýr, það er verið að hlaupa á milli og berjast á milli, einhver togstreita um hvar hitt og þetta eigi að vera innan Stjórnarráðsins. Þá er oft betra að skilaboðin frá forystunni séu, og það sýnast mér þau vera: Hafið ykkur hæg meðan við erum að reyna að greiða úr þessari flækju og reynum að halda áfram að vera vinir. Þannig að það sé sagt.

Fyrirheitin í stjórnarsáttmálanum eru mörg hver mjög fín en það er ekkert um tímasettar áætlanir, fjármagnaðar áætlanir. Ein mesta brotalöm á síðasta kjörtímabili sem virðist ætla að flytjast yfir er til að mynda í umhverfis- og orkumálum. Við erum að sjá fréttir og ákall frá Landsvirkjun varðandi orkuskort og hvernig þarf að hagræða hlutum af því að flutningskerfið er ekki nægilega öflugt og burðugt og það er ekki alveg nægilega skýr sýn. Það er af því að það er hálfvelgja innan ríkisstjórnarinnar. Við vitum að það er togstreita innan ríkisstjórnar þegar kemur að þessu og fyrir vikið verður þetta bara moðsuða, þannig að skilaboðin eru óskýr. Verður farið í það að nýta virkjunarkosti rammaáætlunar? Verður farið í það að bæta við flutningskerfið? Atvinnulífið, bæði hér á suðvesturhorninu og á landsbyggðinni, þarf á því að halda að fá skýr svör. Það vantar skýr svör af hálfu ríkisstjórnar þegar kemur að þessu og það sama, réttilega, varðandi loftslagsmálin. Við sjáum ekki og ég held að það verði afar fróðlegt að fylgjast með því hvernig hæstv. loftslagsráðherra mun framfylgja (Forseti hringir.) stjórnarsáttmálanum. Ég spái því líka að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) muni taka til sín stór verkefni á sviði umhverfismála og það er bara jákvætt, en hann þarf hugsanlega að gera það til þess að eitthvað verði gert í loftslags- og umhverfismálum og á vegum ríkisstjórnarinnar.