152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:55]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þakka hlý orð í minn garð. Það er alveg rétt að það er örugglega hrollur í ansi mörgum nýjum þingmönnum að stíga upp í þetta risastóra ræðupúlt hérna. En það er líka rétt að við höfum öll rödd og eigum að nýta hana hér. Til þess erum við kjörin, til að nýta okkar rödd og láta okkar sjónarmið heyrast hér og það munum við svo sannarlega gera.

En ég held að það sé líka mikilvægt, eins og ég sagði áðan og eins og ég var að benda á, að það er ekki síður mikilvægt í þessari umræðu um akkúrat stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma, sem eru fjárlög og hvert við ætlum að stefna til næstu ára, að hlusta og meðtaka og reyna að ná yfirsýn yfir stóru myndina. Að reyna að leiða saman ólík sjónarmið og ólíkar nálganir í þeim fjölmörgu erfiðu og flóknu verkefnum sem okkar bíða á næstu dögum og næstu misserum. Ég óska bara eftir góðu samtali og samstarfi um það verkefni.