152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir að koma hér upp í ræðu, fyrsti stjórnarþingmaðurinn að undanskildum fjármálaráðherra til að gera það í þessari umræðu. Það var ánægjulegt að heyra að hann er að hlusta á þessa umræðu og ætlar að taka hana inn í vinnuna í fjárlaganefnd.

Ég vildi því spyrja hv. þingmann vegna setu hans í fjárlaganefnd og vegna þess að hann er í stjórnarmeirihlutanum: Nú vitum við að víða hefur komið fram í umræðunni um fjárlög að til stendur að koma með ansi miklar breytingar við frumvarpið. Ég velti fyrir mér hvort meiri hlutinn sé að vinna þessar breytingar í sameiningu, hvort meiri hlutinn hafi fengið einhverja tilkynningu um hvenær restin af okkur þingmönnum fær að vita svona um það bil hvað á að koma fram af breytingartillögum við þetta frumvarp. Hvort við fáum einhverjar upplýsingar um hvenær það muni liggja fyrir eða hvort þetta lendir bara í nefndinni í einni bunu rétt áður en taka á málið út fyrir 2. umr. Ég er bara forvitin um hvort hv. þingmaður viti hvort það sé eitthvert plan eða hvort það verði eins og svo oft áður –– nú veit ég að hv. þingmaður er nýr hérna — að við fáum einhverja pappíra frá ráðuneytinu rétt áður en taka á málið út. Þá gefst lítill tími til að fara yfir tillögurnar. Er eitthvert plan, hv. þingmaður?

(Forseti (BLG): Forseti vekur athygli á því að það er mikið verið að tala um fjárlaganefnd í þessu máli, en þetta mál fer annars til efnahags- og viðskiptanefndar þegar umræðu lýkur nema ósk komi um annað.)