152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Ég verð nú að segja að ég elska þig líka, Ási minn. Mér er virkilega vel til þín. En þarna finnst mér þú gjörsamlega, algjörlega út úr kú, með fullri virðingu. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hv. þingmann, af því að hann nefnir að þarna séu nú sennilega um 100 bændur sem eigi hreinlega lífsviðurværi sitt undir þessum iðnaði, annars næðu þeir ekki endum saman, hvort hv. þingmaður hafi ekki tekið eftir því í minni framsögu að ég óskaði eftir því að þessar 200–300 millj. kr. í heild, ég held að það séu nákvæmlega 207 millj. kr. sem bændurnir fá, ef ég man rétt, að við myndum stíga þarna inn og bæta þeim það og aðstoða þá við að komast í öðruvísi búgrein. Því að ég veit að fæstir þeirra hafa minnstan áhuga á þessari grein.

Og svo er hin spurningin, hv. þm. Ásmundur Friðriksson: Hvernig er hægt að gera þetta fallega? Hvernig er hægt að taka villta hryssu og gera þetta fallega án þess að brjóta dýraverndarlöggjöfina? Verður hún ekki hrædd? Finnur hún ekki til? Er hún ekki skelfingu lostin? Er það ekki akkúrat eitt af því sem sérstaklega er tekið fram, hv. þingmaður, að sé brot á dýraverndarlöggjöfinni? Það er náttúrlega athyglinnar virði að fá að sjá það hvernig hv. þingmaður ætlar að sinna þessari iðju og þessari blóðtöku fallega.