152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:50]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því að það verður aldrei dregin upp falleg mynd af slíkri aðgerð, ekki frekar en þegar verið er að gera að þorski úti á sjó. Það er ekkert sérstaklega fallegt, það eru oft átök í því. En þú spurðir mig hvað verður um folaldið og ég held að það sé það sem skiptir máli. Það er akkúrat það sem við þurfum að tala um, hvað verður um folöldin? Þess vegna er ég að tala um að það þurfi að setja reglugerð og leyfisveitingar um það hvernig er farið með folöldin. Það er bara mjög mikið mál í þessu öllu saman hvað verður um þau og á hvaða tíma aldursskeiðsins þau hverfa í sláturhús. Það eru margir slíkir hlutir sem þarf að skoða og þar er ég algerlega sammála ykkur.

Ég er líka sammála ykkur í því að við verðum að gera þetta vel. Þegar við tölum um siðferði þá erum sammála um að það þarf að vera gott siðferði í atvinnulífinu. Það þarf að vera gott siðferði til sveita og það þarf að vera gott siðferði í öllu því sem okkur líkar ekki. Við erum bara sammála um það. Það eru skiptar skoðanir um ýmislegt í atvinnulífinu, að leyfa hitt og þetta, sumir vilja leyfa hvalveiðar og aðrir vilja ekki leyfa þær, en mikilvægasti punkturinn í öllu þessu er alltaf að það sé siðferði og það sé rétt farið að og borin virðing fyrir því lífi sem er verið að glíma við. Það er alltaf málið og við skulum standa vörð um það. Ég stend með ykkur í því og ég held að við séum ekkert langt hvert frá öðru í því. Ég trúi ekki að nokkur einasti maður í þessum sal sé fjarri okkur í því. En við verðum að geta farið í gegnum þessa umræðu um atvinnulífið, hvernig við viljum sjá það. Ef við ætlum að alltaf að láta undan hótunum útlendinga og svona — það bara virkar ekki. Það virkar ekki. En við eigum að taka umræðuna. Ef niðurstaðan verður að hætta þessu og við erum sammála um það þá gerum við það. Ef ekki, þá höldum áfram en búum þannig um hnútana að siðferðið verði í lagi.