152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:07]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Frú forseti. Ég heyrði fyrst um blóðmerahald í vor þegar hv. þm. Inga Sæland lagði fram frumvarp um þetta mál. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég hafði litla hugmynd um hvað það snerist. Kannski fannst mér að hv. þingmaður væri aðeins að fara offari í málinu. En síðan hef ég aðeins kynnst þessu máli betur og ég verð bara að segja að mér finnst þetta ekki ná nokkurri átt. Mér finnst gríðarlega sorglegt að við séum að fara með dýr eins og raun ber vitni. Í greinargerð frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði hennar. Þegar svo er komið er merunum slátrað. Folöldunum er að jafnaði slátrað.“

Ég veit ekki til þess að það sé gott fyrir nokkurt spendýr að ganga með afkvæmi eitt eftir annað, með engum hléum á milli. Það eitt er í mínum huga nóg til þess að mér finnst við ekki geta samþykkt þetta. Það gengur bara ekki upp. Ég skal alveg viðurkenna að ég veit ekkert rosalega mikið um íslenska hestinn en þetta held ég að sé alveg ljóst. Þetta gengur ekki upp. Og taka fimm lítra í hvert skipti — ég skal alveg viðurkenna það líka að ég sá fyrir mér smástungu, það væri ekkert svo mikið mál. En fimm lítrar, þetta er ekkert smámagn sem verið er að taka.

Aðeins með tilliti til bréfsins sem kom frá Ísteka í dag, um hvernig þeir ætluðu að taka á málum, væri gaman að vitna aðeins í umsagnirnar sem bárust, m.a. frá því fyrirtæki, í vor. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að fá að vitna í umsögn frá Arnóri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Ísteka, þeim hinum sama og skrifaði bréfið, þar sem hann sagði m.a. að frumvarp þingmannanna væri gert af svo mikilli vanþekkingu að því miður væri ekki hægt að svara því efnislega af neinu viti. Þess í stað sagði framkvæmdastjórinn að unnið væri eftir ítarlegri gæðahandbók fyrir blóðgjafir og að gerður hefði verið sérstakur dýravelferðarsamningur við hvern og einn bónda sem seldi afurðir sínar Ísteka sem væri einstakt á Íslandi. Er þetta ekki eitthvað í stíl við það sem hann er að lofa í bréfinu sem við fengum í dag? Einnig kom fram að hjá fyrirtækinu starfaði sérstakur dýravelferðar- og gæðafulltrúi sem hefði aðgengi að hrossum og aðstöðu hjá bændum til ráðgjafar og eftirlits. Hljómar kunnuglega. Dýravelferðarsamningarnir voru í umsögn Ísteka sagðir byggðir á skilyrðum Matvælastofnunar og fagráðs um dýravelferð sem sett væru í samræmi við nýjustu lög og reglugerðir. Þar væri m.a. að finna sérstök ákvæði um nærgætni í umgengni við hryssurnar. Skyldi það batna með myndavélum? Hver ætlar svo að skoða myndirnar úr myndavélunum?

Umsögn barst líka frá Svavari Halldórssyni sem auk annars hefur verið ráðgjafi í landbúnaðarmálum og þar sagði hann Ísteka vera til mikillar fyrirmyndar þegar kemur að dýravelferð, enda væri blóðtakan öll undir eftirliti dýralækna og Matvælastofnunar og áhersla lögð á að fyrirtækið væri það eina hér á landi sem hefði það að reglu að gera sérstaka dýravelferðarsamninga við bændur. Ókei, þetta var sem sagt framkvæmdin sem við sáum og hvað mun breytast með því sem þeir lofuðu í dag? Og af hverju eru þeir að lofa þessu í dag? Það er af því að búið er að koma upp um þá. Það er búið að koma upp um hvernig þetta er og þeir vissu af þessum málflutningi hér í dag.

En þetta er ekki nóg. Dýralæknar voru ósáttir við framsetninguna á frumvarpinu í vor — sumir dýralæknar voru það. Dýralæknafélag Íslands útlistaði leiðbeinandi reglur Matvælastofnunar í umsögn sinni um þingmálið og reifaði svo að Ísteka væri sjálft með virkt innra eftirlit með starfseminni og að það eftirlit ásamt eftirliti Matvælastofnunar miðaði að því að tryggja velferð hryssnanna og folaldanna sem fá ekkert vaxtarhormón. Það kom líka fram að fyrirtækið Ísteka væri með á sínum snærum dýralækni sem sinnti gæða- og velferðareftirliti með blóðsöfnuninni. Heimsækir hann meginþorra blóðgjafarstarfsstöðva og -bæi á blóðgjafatímabilinu og gerir úttekt á aðstæðum á blóðtökustað, svo sem að meta slysahættu, að blóðtökubásar séu traustir og rétt hannaðir, vinnubrögð séu fumlaus og nærgætin og rétt sé staðið að sjálfri blóðtökunni. Básarnir sem við sáum í myndinni sem hefur verið nefnd hérna — voru þeir sem sagt rétt hannaðir og með blessun Dýralæknafélagsins? Einnig segir í umsögninni að Dýralæknafélagið telji að skilyrðin sem Matvælastofnun setji um starfsemina og það eftirlit sem haft væri með starfseminni tryggi velferð dýranna. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmönnum finnst um það en mér finnst hins vegar nokkuð ljóst að velferð dýranna er ekki tryggð. Það bárust líka umsagnir frá allnokkrum dýralæknum en það skal tekið fram að það er alveg ljóst að ekki eru allir dýralæknar hlynntir þessari meðferð á dýrunum, en sumir eru það og sumir sökuðu flutningsmenn frumvarpsins um aðför að starfsheiðri stéttarinnar. Ég ætla ekki að segja meira um það.

Dýralæknir sem sagðist hafa starfað við blóðsöfnun allt frá árinu 2013 sagði að henni þætti afar leiðinlegt að þurfa að færa rök fyrir því að vinna sín snerist um að virða dýravelferð og sagði eftirlit með þessari vaxandi landbúnaðargrein mikið. Í umsögninni kom einnig fram að dýralæknir sem tæki blóð hefði vikulegt eftirlit með hrossunum og aðstöðunni. Innra eftirlit Ísteka væri mjög virkt og þar væri starfandi dýralæknir sem hefði eftirlit með dýralæknum, bændum, hrossum, aðstöðu o.fl. Síðast en ekki síst er eftirlit MAST mjög virkt og hefur stofnunin eftirlit með dýralæknum, bændum, hrossum, aðstöðu o.fl. Tekin eru blóðsýni og blóðprófíll metinn reglulega. Auk þess undirrita allir bændur sem halda hryssur til blóðsöfnunar þar til gerðan dýravelferðarsamning, sagði í umsögn dýralæknis.

Hrossabændur á Norðurlandi sem halda hryssur til blóðtöku sögðu í sameiginlegri umsögn sinni að eftirlit væri mikið og gripið inn í ef þörf væri á en slíkt væri afar fátítt. Í umsögn þeirra stendur einnig að bændum sem haldi hryssur til blóðframleiðslu sé að fullu treystandi til að gera það á þann hátt að velferð þeirra sé tryggð og ef svo ólíklega vilji til að einhverju sé ábótavant væru dýralæknar sem annast blóðtöku meira en vel hæfir til að óska úrbóta eða annarra aðgerða ef þörf væri á. Ég velti því fyrir mér hvort þær óskir hafi einhvers staðar komið fram. Matvælastofnun er síðan með sitt eftirlit og þar með er umgjörð þessarar búgreinar í góðu horfi, sagði í umsögn hrossabænda.

Ég ætla að játa að fram til þess að við fórum að ræða þetta mál í Flokki fólksins nú í haust og sáum þessa mynd var fáfræði mín í þessum málum gríðarleg. Hitt er svo annað að við þurfum að hjálpa þeim bændum sem verða fyrir búsifjum af þessum sökum. Við verðum að hjálpa þeim að beina kröftum sínum í aðrar greinar eða hvernig sem það verður og bæta þeim skaða. Eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson nefndi þá skiptir ímynd Íslands máli og hún er undir. Þetta er ekki bara stríð við einhverjar ríkisstjórnir eða eitthvað þess háttar, það er almenningsálitið sem við erum að eiga við. Það er almenningur sem kaupir af okkur vörur. Það er almenningur sem ferðast til landsins og það skiptir máli hvað almenningi úti í heimi finnst. Ég held að við munum vinna það fé til baka hratt og vel í gegnum alls konar viðskipti sem við eigum í erlendis og í gegnum ferðamannabransann og allt þess háttar. Það er líka ekkert sem getur réttlætt illa meðferð á dýrum. Hér hefur ýmislegt verið rætt en ég staldra mikið við að dýr, stór og fallegur hestur, þetta eru einhverjar glæsilegustu skepnur sem til eru — að halda spendýri fylfullu alveg stöðugt, það eitt og sér finnst mér ekki vera góð meðferð á dýrum. Þetta er það helsta sem ég myndi vilja sagt hafa um þetta mál í bili að minnsta kosti.