152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eitt er það sem við höfum lítið rætt hér, í andsvörum hvert við annað og í umræðunni í kvöld, nema það sem kemur fram í greinargerðinni og hefur aðeins verið komið inn á í ræðum, og það er ásýnd okkar á erlendri grund. Það eru í rauninni þeir hagsmunir sem við erum að setja undir, þeir milljarðar sem við höfum látið í markaðssetningu til að kynna íslenska hestinn og þá virðingu sem fyrir honum er borin á erlendri grund. Ef við tökum það sem ég kalla dýraníð út fyrir sviga og horfum til framtíðar fyrir okkur sem viljum laða til landsins erlenda ferðamenn, land sem vill sýnast fallegt út á við, þá langar mig að spyrja: Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því hvernig ásýnd okkar mun skila sér út í alþjóðasamfélagið með tilliti til þess hvernig upplýsingarnar eru matreiddar á þeim vettvangi hvað varðar blóðmerahald?