152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:43]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki tilbúinn að segja það fortakslaust að þetta gangi freklega gegn velferð þessara dýra sé rétt að því staðið vegna þess að ýmis afurðanýting getur gengið ansi nálægt dýrum. Mig langar í tilefni andsvars hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir, að draga hér inn í umræðuna, virðulegur forseti, ég vona að mér leyfist það, en ég velti því svolítið fyrir mér í ljósi þessarar umræðu í dag hvar við munum enda með svona umræðu. Ég ætla ekki að segja það af því að það er þetta mál og þetta tiltekna bann sem við erum að ræða, en það hefur komið fram í umræðu barátta gegn tæknifrjóvgunum á kúm, kúasæðingar. Það nefni ég hér, virðulegur forseti, bara til að hnykkja enn og aftur á því við erum að fjarlægjast svo mikið skilning á starfi bóndans og fjarlægjast náttúruna. Ég óttast það að hluti af þeim meðbyr sem ég skynja að þetta mál hefur sé einfaldlega vegna þess að fólk er ekki með alla myndina í huga. Þannig að ég spyr hv. þingmann hér til baka: Mun hann beita sér fyrir því að banna kúasæðingar?