152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það mætti fara að skoða að tryggja bændum almennt grunnframfærslu. Við Píratar höfum lengi talað fyrir borgaralaunum, sem er kannski sýn til lengri framtíðar ef við skoðum allt samfélagið, en til skemmri tíma væri hægt að horfa á afmarkaða hópa. Ég held að bændur séu gott dæmi um það. Bændum er bara tryggður ákveðinn grundvöllur til að geta haldið búsetu. Þegar þeir fara síðan að framleiða afurðir eða gera eitthvað annað þá bætist það bara ofan á það.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að 200–300 milljónirnar sem bændur hafa í tekjur af blóðmerunum eru mjög lítill peningur á skala ríkissjóðs. En það er líka bara lítill peningur á skala þess sem bændur hafa í tekjur af hrossum, eins og ég fór yfir í ræðunni, 7–8 milljarðar er ársveltan af hestaleigum og hestaferðafyrirtækjum, 1,5 milljarðar af útflutningi á hrossum. Ég held að þetta sé eitthvað sem atvinnuveganefnd getur lagst yfir og kallað eftir upplýsingum um. Ég held að við séum bara í þeirri stöðu að þurfa að vega þessa ólíku hagsmuni. Það er mjög erfitt að sjá þá geta verið til staðar til frambúðar, hvorir tveggja. Þá þarf bara að meta hvorir eru stærri hagsmunirnir og hvorir minni.