152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:11]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir alveg yndislega ræðu, ég verð að segja það. Það gladdi mig mjög að heyra hana. Hann víkkaði líka enn frekar sjóndeildarhringinn. Hann kemur inn á þætti sem ég hafði ekki nefnt nema ég veit að í stað þess að útflutningur á íslenskum hestum skili 1,5 milljörðum, eins og hann gerði á síðastliðnu ári, þá stefnir nú í að hann verði um 2 milljarðar kr. og enn eitt Íslandsmetið slegið, þannig að hagsmunirnir sem hér er um að tefla eru svo miklu meiri.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það að hann talar um að þetta sé í rauninni yst á skalanum. Ég fann alveg hjarta hans í þessu öllu saman. En það sem ég er að velta fyrir mér, því að ég vil nú helst, eins og hv. þingmaður veit, vera svolítið skýr og skorinorð í framsögunni: Yst á skalanum eða hreinlega brot á dýraverndarlöggjöfinni? Erum við ekki komin þangað að við getum sagt: Þetta er brot á dýravelferðarlöggjöfinni? Hér eru hryssurnar skelfingu lostnar, óttaslegnar. Er meiri hætta en minni á því að þeim líði bara vægast sagt ömurlega í þessum aðstæðum? Og ef svo er, er það þá ekki skýrt að það er brot á lögum um dýravelferð? Ég treysti því að hv. þingmaður og margir fleiri, hv. frábærir þingmenn, eigi eftir að halda utan um þetta mál með okkur þannig að við getum öll lagt það fram af sóma, sem er bæði til bóta fyrir okkur sem samfélag, fyrir bændurna okkar og alþjóðasamfélagið í heild sinni.