152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:17]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa miklu, og ég ætla að leyfa mér að segja ágætu umræðu sem hefur átt sér hér stað. Við höfum farið um víðan völl í umræðu um þetta frumvarp sem hv. þm. Inga Sæland flutti okkur áðan.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér það að skipta um hlutverk og nú ætlar búfræðingurinn og hestafræðingur að tala aðeins. Svo það sé sagt er sá sem hér stendur menntaður sem slíkur þótt ég hafi svo sem ekki stundað það. Þvingun á hrossin hefur verið mikið í umræðunni meðfram þessu. Hvert er grunneðli hestsins? Fæddist hann til að vera í hestaleigu? Fæddist hann til að vera reiðhestur? Eða fæddist hann til að vera blóðmeri? Í grunninn er hesturinn flóttadýr. Flest öll spendýr sem við ölum eru í grunninn flóttadýr. Þið skiljið muninn á flóttadýri og rándýri: Úlfur er rándýr. Hestur er flóttadýr í grunninn og hann þarf að temja á vissan hátt. Og hvernig sem við gerum það og hvort við köllum það þvingun eða hvað, þá er það í grunneðli hestsins að hann er flóttadýr. Ef hesturinn er ekki taminn þá heldur hann grunneðli sínu.

Varðandi blóðtökuna sjálfa og þá umræðu sem hefur skapast hér þá er mjög mikilvægt að við höfum í huga að sú birtingarmynd sem birtist alheimi fyrir ekki svo löngu síðan varðandi mjög slæma meðferð þegar menn tóku blóð á ákveðnum bæ er algerlega óverjandi. Ég fór í andsvar við framsögumann, Ingu Sæland, í upphafi þessarar umræðu og spurði hana hvort þetta væri algilt, hvort þetta væri bara svoleiðis. Hún svaraði því neitandi. Það er mín skoðun að þetta sé ekki algilt og ég held að flest okkar sem hér hafa fjallað um málið vitum að þetta er frávik sem við horfðum á þarna, mjög slæmt frávik sem ekki er hægt að réttlæta. Enda kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu Ísteka að tiltekið merarbú hafi verið svipt þeim velferðarsamningi sem gilti milli bóndans og Ísteka, samningnum var rift.

Það er alltaf þannig þegar við erum að meðhöndla gripi, og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom mjög vel inn á það í ræðu sinni, að fjarlægðin er að aukast milli okkar sem erum í búskap dagsdaglega og almennings. Hér áður fyrr var það þannig að flest ungmenni fóru í sveit, en sá tími er löngu liðinn. Það sem okkur þykir kannski eðlileg meðferð á grip, og hv. þingmaður ræddi, t.d. þegar kindin er sett á afturendann og hún klippt, ég held að hún sé ekkert að biðja um það, en við gerum það samt og við teljum okkur ekki vera að fara illa með hana. Við getum haldið svona áfram. Gripirnir í upphafi, í sköpuninni, hafa jú einhvern tilgang en þeir eru alltaf flóttadýr. Þeirra hlutverk er að eiga eitt til tvö afkvæmi á ári og síðan hefur maðurinn nýtt sér það með tímanum. Við verðum að horfa á hlutina þannig. Varðandi það að menn telji slæmt að hryssa eigi folald árlega er henni það í grunninn eðlislægt. Það er öllum spendýrum eðlislægt, þ.e. jórturdýrum og fleiri dýrum, ég ætla nú ekki að fara að líkja manninum við þetta, (IngS: Jú, jú, jú …) eðlislægt að eiga afkvæmi einu sinni á ári. Hefur blóðtakan slæm áhrif á merina eða hryssuna? Vísindin segja nei. Ég las umsagnir frá dýralæknum sem sendu inn umsögn um málið síðast þegar það var flutt þar sem rætt var um dýralæknanema nokkurn sem gerði holdafarsrannsóknir í meistaraverkefni sínu. Hryssunum var annars vegar fylgt eftir og hins vegar var fylgst með folöldunum. Það var enginn sjáanlegur munur á hryssu sem tekið var blóð úr og folaldinu hennar og bara venjulegri reiðhestahryssu. Þannig að samkvæmt því virðist það ekki há merinni neitt sérstaklega — afsakið, forseti, að ég segi alltaf meri en ekki hryssa — en það virðist ekki vera að verið sé að skerða líf hennar með blóðtökunni, hvað þá afkvæmisins.

Ég byrjaði ræðu mína á því að ræða náttúrulegt umhverfi og náttúrulegt eðli. Segjum sem svo að hryssur fari fimm til átta sinnum í blóðtöku. Hver blóðtaka tekur um 10–15 mínútur. Ef hún færi átta sinnum væri hún 80–100 mínútur í þessum bás á þessu tímabili. Þess utan er hún bara frjáls í haga. Af því að við vorum dásama hér rétt áðan í umræðu — við verðum að horfa á allar hliðar málsins. Hrossin biðja ekkert endilega um að vera í ferðamennsku og velta 7–8 milljörðum eða hvað sem er. Það er alltaf okkar sem höldum skepnuna að ákveða í hvað ætlum að nota hana. En við þurfum alltaf að reyna að gera það eins vel og við mögulega getum til þess að það fari ekki fyrir þeim sem heldur skepnuna eins og fór fyrir þeim sem allur heimurinn horfði á um daginn. Það er lykilatriði í þessu.

Við getum velt tölum fyrir okkur fram og til baka. Hér hefur komið fram að 200–300 millj. kr. gangi til bænda. Segjum að það séu 100 bændur í þessu, 3 milljónir fyrir sauðfjárbónda eru ansi miklir peningar. Við skulum hafa það á hreinu. Það er ansi mikil og góð búbót. En getur t.d. verið að þessi sami sauðfjárbóndi, sem heldur kannski 40–50 blóðhryssur, geti líka verið í því að fara með ferðamenn á baki um landið? Ég þekki mörg þannig dæmi þar sem menn gera hvort tveggja. Sú kúvending sem átt hefur sér stað á einu ári hjá Félagi hrossabænda, hvaðan kemur hún? Er það kannski bara almenningsálitið eða umræðan sem hefur skapast? Ekki sjáum við það á tölum um útflutning á hrossum. Við verðum að hafa í huga að við erum búin að vera að taka blóð úr merum í 40 ár. Við höfum sennilega aldrei selt fleiri hross út en núna á síðasta ári. Salan á hrossum hefur stóraukist, þ.e. reiðhrossum. Ég þekki vel til þess að allt hafi selst. Auðvitað eru gæðin líka alltaf að batna hjá þeim bænum, heldur betur, menn gera vel þar.

Ef við ætlum að halda þessu áfram, þessum blóðmerabúskap — og mér finnst mjög gott að við séum að taka þessa umræðu hér, hv. þm. Inga Sæland, mér finnst það mjög gott — þá er mjög mikilvægt að menn horfi til þess, ég ætla að leyfa mér að nota orðasambandið að hækka rána, og er þá ekki að vísa til körfuboltaþjálfara sem notaði það orð. En þegar ég tala um að hækka rána þá á ég líka við að verðum við að gera kröfu til þess að þeir sem stunda þennan búskap geri það vel. Það hafa margar vangaveltur komið fram í umræðunni síðustu daga og síðustu misseri um það hvort ekki væri heppilegt að gera hryssurnar bandvanar og þess háttar, og ég tel það mjög skynsamlegt. Sjálfur hef ég verið við svona blóðtöku þótt ég stundi hana ekki sjálfur. Á þeim bænum voru hryssurnar allar bandvanar. Þar voru leiddar inn á básinn kannski 30 hryssur og þær voru allar leiddar inn af bóndanum. Þetta voru engin reiðhross en þær gengu þarna inn. Þær voru jú bundnar upp og síðan voru þær staðdeyfðar og blóðið tekið úr. Folaldið beið bara á meðan.

Síðan verðum við líka að hafa í huga, alveg sama hvernig það er, að þegar þú tekur hryssur með folöld úr haganum, einhvern hóp, ég tala nú ekki um eins og var í þessu myndbandi þar sem voru örugglega einar 100 hryssur saman í hóp og einhverjir graðhestar með — það vita allir sem hafa umgengist hafa hross að þá verður allt vitlaust. En eftir því sem hópurinn er minni og umgengnin betri, þeim mun betur gengur þetta. Hluti af því er, til þess að svona lagað sé framkvæmanlegt á góðan hátt, að menn undirbúi hryssurnar. Það er lykilatriði.

Við höfum rætt hér um að þetta séu rétt um 2 milljarðar í útflutningstekjur sem Ísteka skapar með þessu móti. Það eru 200–300 milljónir sem ganga til bænda. Það eru þeir sem vinna við þetta, við blóðtökuna, dýralæknar og fleiri. Hjá Ísteka vinna um 40 starfsmenn, helmingurinn háskólamenntaður. Síðan getum við velt því fyrir okkur hvað er siðferðilega rétt í því að vera að selja hormón til að auka beikonframleiðslu, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan. En krafan er alltaf sú sama sem við framleiðendur og matvælaframleiðendur stöndum frammi fyrir: Við erum að reyna að framleiða ódýrari mat. Það er hluti af þessu, og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom vel inn á það í ræðu hvernig og hvaða áskorunum við stöndum frammi fyrir alltaf hreint. Við þurfum alltaf að vega og meta.

Mér fannst hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hitta svolítið naglann höfuðið áðan, fyrst við ræðum það hér, varðandi það hvar við skiljum á milli: Hvað er dýraníð? Við getum verið verulega ósammála um hvað það er, en frumvarpið gengur náttúrlega gengur út á það að blóðtaka sé dýraníð. Að mínu viti er hún það ekki í dag ef hún er rétt framkvæmd. Það er bara mín einlæga skoðun í því. En þó að ég sé ekki sömu skoðunar og hv. þm. Inga Sæland þá frábið ég mér það að vera kallaður dýraníðingur eða eitthvað svoleiðis. Ég er bara á annarri skoðun og ég tel vel framkvæmanlegt að gera hlutina á þennan hátt.

Annars þakka ég fyrir ágæta og upplýsandi umræðu. Þetta er líka hvatning fyrir okkur öll hér í þessum sal að fylgjast vel með og taka þátt í umræðunni um hvert við erum að þróa landbúnaðarframleiðslu í heild.