152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:19]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um loftferðir, nr. 60/1998. Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða í núgildandi lögum verði framlengdur til 1. júlí árið 2022. Ákvæðið fellur að óbreyttu niður 31. desember 2021. Ákvæði til bráðabirgða var lögfest með lögum nr. 41/2021, um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og tók gildi 1. júní sl. Í ákvæðinu er í stuttu máli kveðið á um heimild ráðherra, þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi og almannaheilbrigði krefst, til að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda eða umráðenda loftfara með reglugerð. Þær skyldur ná til þess að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tiltekin vottorð eða staðfestingu á prófum er varða heilbrigði farþega áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verði lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.

Ástæða þess að ég legg til að ákvæðið verði framlengt er einföld: Áhrifa Covid-19 faraldursins gætir enn um allan heim, afbrigðum Covid-19 veirunnar hefur fjölgað og þrátt fyrir útbreidda bólusetningu gegn veirunni eru smit enn mjög tíð, bæði hér á landi og víðar. Ekki er hægt að útiloka að ferðamenn, þ.e. þeir sem ferðast yfir landamæri, muni áfram bera veiruna og þess vegna ný afbrigði hennar til landsins frá löndum þar sem nýgengi smita er hátt og þar sem bólusetning er ekki enn almennt útbreidd. Spár Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins gera því ráð fyrir áframhaldandi fjölgun smita ef slakað verður á aðgerðum. Þá er ekki útilokað að frekari afbrigði veirunnar komi fram sem bóluefni á þessum tíma vernda ekki eins vel gegn sem og að einstaklingar muni geta veikst alvarlega eða að afbrigði sem er meira smitandi en þau sem nú eru þekkt komi fram og nýjar bylgjur smita fari af stað hérlendis.

Virðulegi forseti. Í ljósi aðstæðna tel ég því brýnt að ákvæði til bráðabirgða gildi áfram tímabundið og þar með sú reglugerð sem ég hef sett á grundvelli ákvæðisins um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna Covid-19 í millilandaflugi, nr. 650/2021, með síðari breytingum.

Að óbreyttum lögum er ekki talið að aðrir möguleikar séu fyrir hendi til að tryggja þær ráðstafanir og framkvæmd sem ákvæði til bráðabirgða heimilar. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða sætir reglugerðin endurskoðun mánaðarlega, að höfðu samráði við heilbrigðisyfirvöld.

Frumvarp þetta var unnið í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og er rétt að geta þess að ráðherra heilbrigðismála áformar að leggja fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum á þessu þingi. Bind ég vonir við að þar nái þær breytingar fram að ganga að þetta ákvæði til bráðabirgða verði þar með óþarft. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis og samgöngur nefndar til 2. umræðu.