152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ráðherrar leggja mál fram gera þeir það í samvinnu við þingið og þeir treysta þinginu. Það er samtal á milli, m.a. ráðuneytis og nefndarinnar, og það eru allir meðvitaðir um að hnykkja þarf á ákveðnum hlutum af því að ráðherrar sjá ekki öll mál fyrir. Það liggur í hlutarins eðli. Búið er að vara við og benda ítrekað á hlutina en menn virðast hafa þverskallast við að bregðast við vegna þess eins að ekki hefur mátt koma til móts við stjórnarandstöðuna, ekki samþykkja það sem gott er ef það kemur þaðan. Í mörgum málum, þvert yfir alla málaflokka, hefur stjórnarandstaðan komið með sínar tillögur en þeim hefur öllum verið hafnað og síðan eru ráðherrar komnir með svipaða tillögu eða meiri hlutinn korteri síðar. Það er bara fínt. Ef við löðum fram góðar hugmyndir hjá stjórnarliðinu þá skiptir öllu máli að fá það fram en ekki hver það er sem gerir það. Þess vegna höfum við í Viðreisn stutt ríkisstjórnina í þeim málum sem við höfum flokkað undir almannahagsmuni framar sérhagsmunum, ekki síst á tímum Covid, einmitt til að undirstrika verðmæti sem felast í samstöðunni. En það er fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að það er að kvarnast upp úr þeirri samstöðu í dag að mínu mati í samfélaginu, fyrst og fremst á hennar ábyrgð. Ekki bara það að ríkisstjórnin sé ekki lengur sjálf samstiga og tali þvers og kruss í ýmsum málum, heldur eru vinnubrögðin einfaldlega þannig að þau auka ekki tiltrú okkar sem vinnum hér á Alþingi á að þau mál sem hún leggur fram séu raunverulega í þágu alls almennings.

Ég ítreka spurningu mína: (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þessi vinnubrögð muni breytast á nýju ári? Ég bind sjálf alltaf vonir við nýtt ár og nýja tíma.