152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[17:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins til að koma hér upp af því að mér er þessi umræða í svo fersku minni, hún situr satt best að segja dálítið í mér. Þegar heiti laganna er skoðað, lög um loftferðir, og einhverjar smávægilegar breytingar þar á, hvarflar kannski ekki að manni hversu mikilsverð réttindi voru þar undir, það hvarflaði ekki að manni við fyrstu sýn. Mér finnst bara ástæða fyrir okkur að muna eftir þessu og halda þessari forsögu til haga við framvindu málsins núna. Þarna undir voru þættir sem eru í sjálfu sér kjarninn í ríkisborgararéttinum. Að þetta hafi gerst finnst mér vera dálítið skólabókardæmi um að í svona málum sem hafa góðan tilgang í erfiðum aðstæðum þar sem hræðslan er alltumlykjandi þá fara réttindin að víkja. Það er auðvitað þannig með mannréttindin, þessi grundvallarréttindi sem eru svo veigamikil og svo heilög að þeim er fundinn staður í stjórnarskránni, að stærsta prófið um það hvort og hvernig þessi réttindi virka er auðvitað þegar á þau reynir, þegar að þeim er þrengt. Þarna gerist það einmitt að umræðan fer af stað um að það sé svo mikið undir og slík hætta á ferðinni að ekki gefst tími til að rýna málið þrátt fyrir að sérfræðingar á sviðinu hafi flaggað og þeir flögguðu með þeim hætti að þarna hefðu menn átt að gefa sér tíma, þegar skylda átti flugrekendur til að synja farþega um flutning með augljósum afleiðingum. Það að vera synjað um flutning til landsins þýðir auðvitað í reynd að manneskja kemst ekki til landsins við ákveðnar aðstæður. Þessi regla hefði átt að gilda jafnt um íslenska ríkisborgara sem erlenda. Í fyrri ræðum um það atriði hefur komið fram að auðvitað bannar stjórnarskráin ekki alla mismunun milli fólks. Stjórnarskráin og öll okkar réttindalöggjöf er þannig uppbyggð að þegar við berum fólk saman þá erum við að bera saman hliðstæðar aðstæður og við erum að bera saman hvort sjónarmiðin að baki ólíku regluverki séu málefnaleg eða ómálefnaleg. Þá gengur auðvitað ekki að ætla að líta fram hjá því að stjórnarskráin mælir fyrir um það mjög skýrlega að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins og honum verði ekki vísað úr landi. Sérfræðingar hafa talað um að þetta sé einn af veigamestu þáttunum og einn kjarninn í ríkisborgararéttinum, rétturinn að mega koma til síns heimaríkis.

Mig langaði bara að koma hér upp til að minna á þetta sjónarmið, að þau réttindi í stjórnarskránni sem þarna eru undir, hvort sem við erum alveg á bríkinni við þau eða farin yfir línuna, um grundvallarréttindi fólksins í landinu hafa ekki þýðingu í reynd ef við stöndumst ekki að fara að kroppa í þau þegar hættuástand er fyrir hendi.