152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum, framlenging bráðabirgðaheimilda, þar sem lagt er til að framlengdar verði bráðabirgðaheimildir dómstóla, lögreglu og sýslumanna til að nota fjarfundabúnað og rafrænar lausnir við meðferð mála í ákveðnum tilvikum. Umræddar bráðabirgðaheimildir sem fyrst voru samþykktar í apríl 2020 vegna þess ástands sem þá ríkti vegna kórónuveirufarsóttarinnar og síðar voru framlengdar til 31. desember 2021 hafa reynst vel. Þannig hafa dómstólar notast við rafrænar lausnir frá því að það var heimilað, m.a. við fyrirtökur, aðalmeðferðir og við framlengingu gæsluvarðhaldsúrskurða. Ljóst er að fresta hefði þurft málum í enn ríkari mæli af völdum útbreiðslu kórónuveirunnar en raunin varð. Þá liggur fyrir að af sömu ástæðu hafa sýslumenn í auknum mæli beitt rafrænum lausnum við meðferð dánarbúa með það að markmiði að fækka óþarfa komum á sýsluskrifstofur og tryggja að þjónustan líði ekki fyrir ástandið sem myndast hefur. Það er því mikilvægt að framlengja heimildir til rafrænnar meðferðar mála. Þá hefur það fyrirkomulag að lögreglu sé unnt að taka skýrslu á rannsóknarstigi í gegnum fjarfundabúnað reynst mjög vel og engir meinbugir komið í ljós. Í ljósi þess að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar gætir enn er talið rétt og mikilvægt að framlengja framangreindar heimildir til rafrænnar meðferðar. Með því gefst tími til að taka til frekari skoðunar hvort útfæra eigi slíkar rafrænar lausnir með varanlegum hætti. Ég legg því til að þær verði framlengdar til ársloka 2024.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að framlengd verði bráðabirgðaheimild laga um dómstóla sem heimilar að Landsréttur sé staðsettur utan Reykjavíkur en þá heimild samþykkti Alþingi í febrúar 2017 og gildir hún til 1. janúar 2022. Frá því að Landsréttur tók til starfa hefur rétturinn haft aðsetur í Kópavogi. Þar sem enn er unnið að húsnæðismálunum dómstólsins er lagt til að umrædd heimild verði framlengd um önnur fimm ár eða til 1. janúar 2027.

Ég legg til að frumvarpinu, virðulegur forseti, verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.