152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gildir um þetta mál eins og mörg önnur sem liggja fyrir þinginu þessa dagana að um er að ræða bráðabirgðaneyðarheimild, notuð til að festa eitthvað í sessi sem kannski má deila um hvort sé til bráðabirgða að þessu sinni. Hér er m.a. mælt fyrir bráðabirgðaheimild til ýmissa stjórnvalda og dómstóla til að taka mál fyrir á fjarfundi eða á símafundi, bjóða upp á rafræna meðferð mála. Heimildin var fyrst sett til nokkurra mánaða og var síðan framlengd í rúmt ár og átti að gilda til loka þessa árs. Nú er hún aftur lögð fram til bráðabirgða, í neyðarumræðu og óðagoti þar sem enginn almennilegur tími gefst til að ræða málið, og nú á að framlengja hana til þriggja ára. Hæstv. ráðherra hélt því fram áðan að engir meinbugir hefðu fundist á þessari framkvæmd. Þá leikur mér forvitni á að vita: Hvaða gögn liggja að baki þeirri fullyrðingu ráðherra? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um það. Hefur verið gerð einhver úttekt á því eða eru einhver gögn sem sýna fram á þetta? Í þeim fáu umsögnum sem tækifæri hefur gefist til að leggja fram um málið kemur m.a. fram að komið hafi upp misræmi í framkvæmd og kallað hefur verið eftir nánari útfærslu og annað sem hefði kannski þurft meiri tíma til að sinna.

Ég vil bara taka undir það sem aðrir hafa sagt hér í dag: Við erum komin út á hálan ís þegar við erum farin að taka því sem gefnu að það megi afgreiða bráðabirgðaheimildir trekk í trekk og til lengri tíma án þess að nokkurn tímann gefist raunverulegur tími hérna til þess að ræða mál af þessu tagi. Þau eru sannarlega mikilvæg. Til viðbótar við þær spurningar sem ég hef beint til hæstv. ráðherra langar mig bara að biðja um úthugsaðri og vandaðri vinnubrögð af hálfu þessarar ríkisstjórnar.