152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að það sé ágætt að horfa svolítið á heildarmyndina þegar við erum að stíga þessi skref hér í þinginu. Það er í sjálfu sér hægt að gagnrýna það með ýmsum hætti að þetta sé að gerast þannig að menn þurfi að sækja sér bráðabirgðaheimildir. En af hverju stigum við þessi skref? Af hverju var þingið á sínum tíma að veita þessar bráðabirgðaheimildir? Jú, það var vegna þess alvarlega ástands sem skapast hafði í samfélaginu og það var til að reyna að gera stjórnsýsluna afkastameiri og skilvirkari í þágu íbúa landsins, að kerfið gæti virkað þrátt fyrir þá annmarka sem augljóslega voru til staðar. Þannig höfum við brugðist við á öllum sviðum samfélagsins, alveg eins og hér í þinginu, til að mynda þegar maður horfir hér yfir salinn, hvar fólk er staðsett, breytt vinnubrögð og við höfum innleitt nýjar reglur. Margt af því er komið til að vera. Við höfum lært af þessu. Við höfum innleitt nýja tækni sem gerir okkur kleift að gera verkin skilvirkari og afkastameiri.

Ég fór yfir það áðan að við erum búin að vera í nokkur ár á mjög hraðri og ákveðinni vegferð í að innleiða rafrænar lausnir, Stafrænt Ísland. Við urðum að grípa til óvæntra ráðstafana vegna Covid-ástandsins í þeim efnum og ég held að engu okkar hafi dottið það í hug fyrir tæpum tveimur árum þegar þessi höggbylgja skall á okkur að við stæðum hér í dag og það væri ekki búið að leysa úr þessum málum, að við sætum enn þá uppi með þetta stóra vandamál sem þessi vágestur hefur gefið okkur. Þess vegna voru bráðabirgðaheimildirnar settar til skamms tíma af því að það trúði því enginn. Nú erum við enn á þessari vegferð og munum halda áfram á henni og ég myndi frekar líta, þegar upp verður staðið, á þær jákvæðu hliðar sem hafa myndast af þeim lærdómi sem við höfum dregið á þessum vettvangi.