152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekkert verk okkar mannanna er algjörlega fullkomið og auðvitað eru meinbugir á ýmsu sem hafa fylgt því sem við erum að takast á við í þessu Covid-ástandi. Við getum litið þar til, held ég, flestra þátta í samfélaginu. Við getum líka litið bara inn á við hjá þinginu og fundið ýmsa meinbugi sem hafa orðið á framkvæmd á störfum þingsins, til að mynda. Við þekkjum það öll sem vorum hér á síðasta kjörtímabili hvernig það gekk nú að koma þessum stafrænu fundum á með fjarfundarbúnaði og því öllu. Þetta var ekki til staðar. Það voru ýmsir meinbugir sem við glímdum við; það heyrðist ekki í mönnum þegar það átti að heyrast í þeim og svo heyrðist í mönnum þegar ekkert átti að heyrast í þeim o.s.frv. Þannig að auðvitað eru einhverjir meinbugir sem fylgja þessu. Við erum auðvitað bara að slípa það til og það hefur verið að gerast úti um allt samfélagið. Af hverju til þriggja ára? Ja, ætli það sé ekki verið að horfa til þess að við þurfum ákveðið svigrúm. Við sjáum það í dag núna, u.þ.b. tveimur árum eftir að þessi höggbylgja skall á okkur, þetta Covid-ástand, (Forseti hringir.) að við þurfum lengri tíma til að glíma við þann vágest. Hann er ekki að fara frá okkur (Forseti hringir.) og við þurfum þá tíma til að geta innleitt langtímalöggjöf um þau mál sem hér eru undir.