152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna það enn og aftur að kannski sé fátt svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott. Það höfum við þó lært af þessu Covid-ástandi að við höfum getað innleitt tækni og við höfum getað breytt vinnubrögðum. Það mun auka á skilvirkni og þægindi þeirra sem njóta. Þetta á sér stað víða í samfélaginu. Ég nefndi það hér í inngangsorðum mínum að mjög góð reynsla væri af mörgu af því sem hefur verið innleitt og ástæða sé til að horfa til varanlegra breytinga á kerfinu. Það er auðvitað eitthvað sem er bara verið að læra núna á þessum tíma, í ljósi reynslunnar og þeirrar þróunar sem orðið hefur á tækninni. Rafræn meðferð mála, t.d. á vettvangi þess ráðuneytis sem ég stend fyrir, hefur skilað einhverju í reynslubankann sem sýnir okkur að það er tímabært að horfa á þetta til lengri tíma. Ég lít á þennan tíma sem áframhaldandi safn í reynslubankann og síðan munum við í framhaldi af því koma fram með varanlega löggjöf til að innleiða þessar breytingar. Það krefst lagabreytinga þegar verið er að fjalla um svo viðkvæma málaflokka eins og heyra undir í þessu ráðuneyti. Ég get alveg tekið undir það að ég vona að það taki ekki þrjú ár. Ég vona að innan þess tíma verðum við laus við þennan vágest og búin að leggja fram heildarlöggjöf sem snýr að þessum málum og öðrum þar sem við stígum þessi skref inn í framtíðina.