152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[18:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég held að þetta þurfi að gerast á grundvelli stefnumörkunar ráðherra og í því samráði sem því fylgir. Við erum alla daga að senda einhver skilaboð frá okkur hér í þessum sal með því sem við samþykkjum. Ég held að það væri mjög vont að senda héðan þau skilaboð að segja: Heyrðu, við ætlum að vera í bráðabirgðaframlengingum á Covid-aðgerðum hér um bil út allt kjörtímabilið, til ársloka 2024. Það eru ekki góð skilaboð. Við eigum að senda þau skilaboð að við ætlum okkur út úr þessu ástandi hið allra fyrsta, ekki í árslok 2024. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þetta mál úr kórónufötunum og setja það í búning stefnumörkun ráðherra. Það má vel vera að þetta sé hið besta mál, enda sýnist mér á öllu í samráðskaflanum að engar umsagnir hafi borist. Þeir sem um höndla virðast ekki gera miklar athugasemdir við þennan tíma en ég held að við eigum ekki að senda þau skilaboð út að við verðum í Covid-bráðaaðgerðum út árið 2024.