152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[18:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fylgja eftir þeirri tillögu sem hv. 10. þm. Reykv. n., Andrés Ingi Jónsson, kom með. Ég hjó eftir því í svörum hjá hæstv. ráðherra að hann virtist ekki geta svarað spurningunni um það hvort einhverjir meinbugir hefðu verið á heimildum fyrir rafrænni meðferð. Ég veit það af reynslu minni úr tæknigeirann að það er mikilvægt að tala við notendur og það tekur alltaf svolítið lengri tíma en ætlast er til og því langar mig að leggja það til að hæstv. ráðherra ýti á það að ráðuneytið geri slíka athugun. Ég er sammála hv. 10. þm. Reykv. n. að þrjú ár séu allt of langur tími. Ég væri frekar til í að leggja það til við virðulega allsherjar- og menntamálanefnd að tíminn sem ætlaður sé í að koma með varanlegri löggjöf sé fyrir árslok 2022. Þá er hægt að gera þessa athugun núna í vor, kynna hana fyrir þingi. Það er hægt að vera í góðu samráði við stjórn og stjórnarandstöðuflokka um hvernig þetta væri gert. Ég myndi líka halda að þetta væri hlutur sem hæstv. ráðherra vildi klára meðan þessi mál heyra enn undir hann. Ég beini því til virðulegrar allsherjar- og menntamálanefndar að veita ráðuneytinu og hæstv. ráðherra smá aðhald með því að gefa ekki þrjú ár heldur horfa frekar til þess að búið verði að klára þetta fyrir árslok 2022.