152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:55]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, upplifun og kraftur, og það er bara gott að vita og heyra skoðun hennar. Mig grunar að við séum bæði innblásin af veru okkar innan NATO-þingsins undanfarin ár í þessum málum. Við fáum náttúrlega meiri innsýn í þessi málefni en þingmenn almennt hafa fengið hér í þinginu með því taka þátt í því öfluga starfi sem fer fram í NATO-þinginu og hefur gert síðustu árin. Þar er þetta eiginlega lykilmálið. Fölþáttaógnin; það eru fjarskiptin og það er raforkan. Þetta höfum við lært og mikið rætt. Þetta er raunverulega fyrsta stigið í hernaði í dag. Það er fjölþáttaógnin, að fara gegn fjarskiptunum og raforkunni.

Ég hef heyrt frá hv. þingmanni síðustu daga og nú síðast í dag varðandi raforkukerfið. Mig langaði aðeins að koma inn þjóðaröryggisvinkilinn almennt því að maður fær svo sjaldan tækifæri til að ræða það. Við ræðum mjög sjaldan þessi mál. Við kynntumst því fyrir nákvæmlega tveimur árum í vondu veðri, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, á norðanverðu landinu þar sem hreinlega var rafmagnsleysi víða bara dögum saman. Hv. þingmaður hefur komið inn á hversu illa hefur gengið síðustu ár að koma á og byggja upp flutningskerfi raforku. Nú eru þó framkvæmdir hafnar, Kröflulína 3 er komin frá Fljótsdalsstöð í Kröflu, svo er unnið að Hólasandslínu, hún verður spennusett væntanlega næsta sumar, það er Krafla–Akureyri og síðan á að halda að Blöndu frá Akureyri og við erum að tala um Suðurnesjalínu og svo eru það Vestfirðirnir. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá er ástandið verst á Suðurnesjum, Vestfjörðum og Norðurlandi. Nú hef ég talað fyrir löggjöf sem snýr að þjóðaröryggi til að passa upp á þessa hluti. Hvert er álit hv. þingmanns (Forseti hringir.) á kerfisáætlun til tíu ára, þriggja ára framkvæmdaáætlun, svo eru kærufrestir og annað sem seinkar, möskvunin verður ekki til, (Forseti hringir.) hvaða skref eigum við að taka á næstunni sem snúa að þjóðaröryggismálum, snúa að raforkukerfinu og stóra kerfinu?