152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Talandi um framtíðarskipulag, og að brúa vandann og vera forsjál, þá minntist hv. þingmaður einmitt á húsnæðismál. Mér finnst áhugavert að í þessu fjáraukalagafrumvarpi er verið að leita að aukafjárheimildum fyrir fullt af hlutum, eins og Hefjum störf, eins og ég fór yfir í ræðu minni, en t.d. ekki vegna húsnæðisaðgerða. Við vitum öll að það er krísa á húsnæðismarkaði, það vantar fleiri íbúðir, ekki hefur verið neitt átak í því að byggja fleiri íbúðir af hálfu ríkisstjórnarinnar sem stofnstyrkir snúast t.d. um. Það var afgangur af þeim, það þurfti að skila hluta af því, það náðist ekki að nýta allt. Það var greinilega engin eftirfylgni þar. Þar þurfti að brúa öll störfin, ég skil það mjög vel, en það vantar líka 4.000–5.000 íbúðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Ef eitthvað á að ná jafnvægi til framtíðar, eins og hv. þingmaður benti á, má benda á að aðalhluti verðbólgunnar á þessu ári var vegna húsnæðismála, vegna allrar þeirrar miklu aðstoðar sem stjórnvöld buðu á eftirspurnarhliðinni. Það að hjálpa fólki að kaupa þau fáu hús sem voru til býr einfaldlega til verðbólgu af því að húsnæðisverð hækkar og hækkar. Það er ekki komið hingað og sagt: Heyrðu, okkur gekk svo rosalega vel að leysa húsnæðisvandann að við eyddum 2 milljörðum aukalega í húsnæðisstuðning, við þurfum að fá fjárheimildir fyrir því. Nei, það er ekki gert. Það er leitað eftir 6 milljörðum vegna átaksins Hefjum störf, sem er gott og blessað út af fyrir sig, en húsnæðismarkaðurinn gleymdist alveg.