152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að húsnæðismálin eru risamál og það myndi auðvitað stórbæta stöðu okkar ef við næðum einhverri góðri framtíðarsýn þar. Það er fátt áreiðanlegra en akkúrat þar. Við höfum nokkuð áreiðanlegar mannfjöldaspár t.d., við getum spáð fyrir um vöxt ferðamanna og annað slíkt. Það á því að vera hægt að búa til kerfi sem tryggir stöðugra framboð og það á að vera hlutverk ríkisins að gera það, ekki minnst.

Samfylkingin hefur reyndar lagt fram frumvarp sem vonandi kemst á dagskrá, um tvöföldun þessara stofnstyrkja, m.a. vegna þess að það þarf að gera það til að ná þessu markmiði. Við þurfum líka til lengri tíma til að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað sem byggir ekki bara á séreignarstefnu heldur gerir líka ákjósanlegt að vera leigjandi. Þegar maður mætir einu sinni á ári á þetta íbúaþing stjórnvalda, þar sem dregin er upp glæran um að könnun hafi sýnt að aðeins þriðjungur Íslendinga vilji vera á leigumarkaði miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir þá segir það ekkert um vilja Íslendinga til að vera á leigumarkaði af því að Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Það segir hins vegar að leigumarkaðurinn er lélegur og það þarf að bregðast við því. Ég held því að tímanum væri hægt að verja í margt verra en að við tækjum hér fjörugar og frjóar umræður um húsnæðismál, hvernig við getum stýrt framboðinu og hvernig við getum farið að þróa íbúðalausnir sem bjóða upp á raunverulega góða leigukosti.