152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er einmitt talað um að hægt væri að bæta úr þessum íbúðaskorti á tíu árum. Það þyrfti að byggja ákveðið margar íbúðir aukalega á hverju ári svo að ekki skorti íbúðir lengur til viðbótar við það sem þarf að byggja vegna líffræðilegrar fjölgunar. Spár á þeim vettvangi hafa ítrekað verið byggðar á vanáætlun, það kennir sagan okkur. Ef eitthvað er ættum við því að leggja meira af mörkum. En það felst einmitt í breytingartillögu minni hlutans, Pírata, Samfylkingarinnar, Flokks fólksins og Viðreisnar, að fjármagna það lágmark sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leggur til, það eru 3,5 milljarðar í húsnæðisstuðninginn a.m.k. til þess að ná þessum skorti niður á tíu árum. Að sjálfsögðu ættu markmiðin að vera miklu metnaðarfyllri hvað það varðar, en væri það ekki einmitt lágmark? Hvernig svo sem framleiðnin getur verið þá væri stefnan a.m.k. skýr.