152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir hans ágætu ræðu. Hann kom þar víða við og kemur okkur nú ekki á óvart að hann er vel heima í ýmsum afkimum þess kerfis sem honum varð tíðrætt um. Það sem mig langaði aðeins til að heyra í hv. þingmanni um er að mjög oft þegar verið er að ræða um að gera þurfi úrbætur og settar eru fram góðar tillögur, eitthvað af tillögum stjórnarandstöðunnar nú og fyrr, þá er mjög gjarnan svarað: Já, þetta er allt hið ágætasta mál og mikið til í því sem sagt er. En nú stendur fyrir dyrum heildarendurskoðun og ráðherra málaflokksins hefur uppi mjög góð áform um að lagfæra allt sem úrskeiðis kann að hafa farið, þannig að nú skulum við ekki vera að rugga þessum bát því hér þarf vandaða vinnu og o.s.frv.

Nú veit ég að hv. þingmaður hefur orðið vitni að alls konar heildarendurskoðun, eða eigum við frekar að kalla það áform um heildarendurskoðun? Mig langar til að spyrja hann: Hefur hann einhverja trú á því að loforð af þessu tagi skili árangri? Og þá um leið kannski að bæta við í öðru lagi: Hvað er það sem veldur því að þetta virðist vera svona gríðarlega erfitt? Við vitum að kerfin eru ekki fullkomin, langt frá því, og um þau erum við að ræða. En einhvern veginn virðist vera svo erfitt að laga þetta.