152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Jú, það er talað um þessar kerfisbreytingar til eldri borgara, að þær hafi skilað sér til þeirra. En við getum ekki verið að tala um það ár eftir ár vegna þess að það segir sig sjálft að þótt við höfum gert kerfisbreytingar er varða aldraða þá er svo stór hópur aldraðra, allt of stór, sem er kannski að fá 220.000 kr. útborgaðar. Við vitum að 220.000 kr. eru ekki neitt í þjóðfélaginu í dag og sérstaklega fyrir þá eldri borgara sem kannski eru á leigumarkaði. Við getum ekki alltaf verið að tala um það sem kerfisbreytingar hafa skilað, við verðum líka að passa upp á að kerfisbreytingarnar haldi verðgildi sínu og skili sér áfram en dragist ekki aftur úr. Það er það sem ég er að velta fyrir mér og líka það — ég kem sennilega að því í ræðu minni. Ég vona heitt og innilega að hægt verði að finna einhvers staðar í þessum breytingum eitthvað sem skilar sér betur til aldraðra.