152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:39]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er vissulega hægt að taka undir það að við fjöllum hér um eitt stærsta mál þingsins hverju sinni og að við séum kannski að ræða það á óvenjulegum tíma. Það þarf samt ekki að koma neinum á óvart í hvaða aðstæðum við erum. Það hefur verið rætt um það og það var vitað fyrir fram að við myndum ræða fjáraukalögin á undan fjárlögunum vegna aðstæðna, vegna þess hvernig mál lögðust, þannig að það hefur legið fyrir. Það hefur líka verið rætt hér hvernig við högum umræðunni og ekki hefur tekist um það samkomulag, en það hefur verið ákveðinn rammi. Þannig að það ætti ekkert að koma á óvart að við höfum skamman tíma til stefnu. Ég tel að við verðum að nýta tímann vel, og það þarf heldur ekki að koma neinum á óvart, til þess að við getum þá afgreitt málið á kristilegum tíma á morgun.