152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[23:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Fjármálaráðherra lýsir þessu nokkuð vel, verð ég að segja. Er það fjármálaráðherra að setja takmarkanirnar eða er það þingsins? Ég er á þeirri skoðun að það sé þingsins, þannig að þegar hugmyndir koma frá fagráðherrunum um hvað kostar að reka þau kerfi samkvæmt þeim lögum sem við höfum sett, þá berist þær beint til þingsins, að sjálfsögðu. Fjármálaráðuneytið er þar í stuðningshlutverki við ýmsa útreikninga og samhengi og þess háttar. Það er þingið sem metur hvort þetta séu viðeigandi fjárheimildir eða ekki. Það er ekki fjármálaráðherra að segja: Nei, heyrðu, hérna í almannatryggingakerfinu, lyfin, þú þarft ekki 14 milljarða, þú þarft bara 12 af því að það kemur betur út fyrir afkomu ríkisins að láta það líta út þannig, því að við vitum það að hagspáin er yfirleitt með vanáætlaðar tekjur fyrir ríkissjóð þegar við reiknum það út, þannig að þegar kemur að fjáraukanum í lok árs eru tekjurnar hvort eð er hærri og við getum jafnað það út og það lítur alltaf út eins og við höfum verið í plús.