152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég lærði það í lagadeildinni og hef lært það oft áður að ef maður ætlar að segja einhverjum frá einhverju eigi maður að segja það við hann, skrifa það niður, eins og hann viti ekkert um málið. Þetta fjárlagafrumvarp er ekki þannig. Það virðist vera að maður þurfi eiginlega að hafa verið í þessu í nokkur ár til að geta skilið þessa bók algerlega og haft einhverjar bakgrunnsupplýsingar. Það er það fyrsta sem maður rekur augun í. Það er mjög einfalt að gera þetta með einföldum hætti, tel ég. Hér eru hugtök eins og útgjaldasvigrúm sem ég held að sé hækkun á fjárheimild. Af hverju kalla þeir það ekki bara hækkun? Það er aðhaldskrafa sem er gegnumgangandi í fjárlögunum en hún er bara sums staðar. Maður veit ekki alveg nákvæmlega hvar hún er, hún er svo fljótandi. Þetta er andinn eða stemningin í frumvarpinu. Svo sér maður liðina, sér að þetta hækkar. Á einum stað man ég að það var aðhaldskrafa upp á 4,9 millj. kr. en útgjaldasvigrúm upp á 50 millj. kr. Þá reiknaði ég út: Bíddu, er þetta hækkun upp á 9,1 millj. kr.? Ég held að það sé rétt hjá mér. Það eru svoleiðis atriði.

Varðandi það að þingið geti greitt atkvæði: Það þarf líka að móta frumvarpið með þeim hætti að þingið geti greitt atkvæði um ákveðna liði en frumvarpið virðist ekki hannað út frá því. Það virðist vera hannað út frá einhvers konar bókhaldi ríkisins og ríkisreikningi en ekki fyrir þingið, fulltrúa almennings sem eru með fjárveitingavaldið. Það virðist vera hannað meira fyrir kerfið, ráðuneytið. Það tel ég vera mistök í aðferðafræði og ég held að það væri mjög athyglisvert, í krafti gagnsæis og nýrra laga um opinber fjármál þar sem gagnsæi var aukið, að fara í þessa breytingu.