152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Viðreisn stendur að breytingartillögum minni hlutans í fjárlaganefnd á þskj. 228. Þær eru í 10 liðum og vel rökstuddar í greinargerð með tillögunum. Um þær hefur m.a. verið fjallað í nefndarálitum minni hlutans. Viðreisn á einungis áheyrnarfulltrúa í fjárlaganefnd, sem þó tekur fullan þátt í störfum nefndarinnar en er ekki heimilt að leggja fram eigið sjálfstætt nefndarálit. Hér verður ekki varið tíma í frekari útlistun þessara sameiginlegu tillagna en þegar hefur verið gert af nefndarmönnum minni hlutans. Þó er vert að vekja sérstaka athygli á tölulið 5 í tillögunum sem felur í sér 900 millj. kr. framlag til þess að fjármagna sálfræðiþjónustu. Að frumkvæði Viðreisnar voru samþykkt lög um mitt ár 2020 þess efnis að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar og annarrar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna. Hingað til hefur ekki nægu fé verið varið til að standa við efni laganna sem þó ríkti mjög breið samstaða um að setja. Vonandi verður nú gerð á því bragarbót.

Við búum við sérstakar aðstæður, um það deilir enginn. Heimsfaraldurinn hefur staðið í hartnær tvö ár. Nýjustu fréttir af gangi hans gefa því miður ekki tilefni til mikillar bjartsýni. Fátt bendir til að honum ljúki fljótlega og við verðum nauðug viljug að búa okkur undir að hann geti staðið enn um sinn, jafnvel árum saman. Þessi vitneskja kallar á að við endurskoðum hvernig við tökumst á við þann vanda sem við okkur blasir. Hann er því miður ekki skammvinnur heldur langvinnur.

Í heilbrigðiskerfinu er viðvarandi neyðarástand. Þrátt fyrir að starfsmenn þess hafi tekist á við öll viðfangsefni á undangengnum misserum af æðruleysi er ekki hægt að ætlast til slíks til lengri tíma. Hvorki er rétt né raunhæft að gera þær kröfur til starfsmanna heilbrigðiskerfisins að þessi starfsskilyrði séu hið nýja norm. Bregðast verður við með aðgerðum til lengri tíma sem gera kerfinu kleift að takast á við þennan vanda. Að öðrum kosti blasir við okkur mun verri staða, þar sem starfsmenn missa móðinn og gefast upp. Það gengur óvenjuilla að manna lausar stöður í heilbrigðiskerfinu, ekki síst á höfuðsjúkrahúsi landsins, og skyldi engan undra. Hver velur sér starfsvettvang þar sem stöðugt krísuástand ríkir? Getur nokkur ætlast til þess?

Forseti. Því miður er ekki að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir þessum vanda og hugsanlegum afleiðingum hans; því sannkallaða skelfingarástandi sem myndi ríkja ef heilbrigðiskerfið getur ekki staðið undir veirufaraldrinum í marga mánuði enn. Hvað þá? Hvað gerist ef faraldurinn heldur áfram og úrbætur verða ekki? Allt tal ríkisstjórnarinnar um kerfisvanda og endurskipulagningu er eiginlega ekkert annað en einhvers konar fyrirsláttur. Við vitum að við eigum við bráðavanda etja og hann verður að leysa með bráðaaðgerðum. Við þurfum einfaldlega fleiri starfsmenn til þess að geta fjölgað rýmum á bráðamóttöku og gjörgæslu. Þá þarf legurými fyrir veikt fólk á deildum spítalans og koma fólki af spítalanum í annars konar þjónustu og umönnun. Við þurfum enga sérfræðinga til þess að segja okkur það, jafnvel þótt þeim sé líkt við Messi fótboltans, þeir munu ekki leysa þennan vanda fyrir ríkisstjórnina.

Það er eins og ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir hve dýr faraldurinn verður ef við eigum að takast á við hann án þess að njóta stuðnings öflugs heilbrigðiskerfis. Eða á þetta bara að reddast? Langvarandi faraldur krefst líka endurskoðunar á öðrum aðgerðum. Atvinnulífið hefur verið að taka við sér. Enn og aftur hafa Íslendingar sýnt einstaka aðlögunarhæfni sína. Atvinnuleysi hefur dregist saman og hagvöxtur hafist að nýju. Þótt enn sé langt í land með að ferðaþjónustan og veitingageirinn nái fyrri styrk hefur umtalsverður uppgangur verið í atvinnulífinu. Veruleg framlenging á faraldrinum kallar á og krefst þess að þessi aðlögunarhæfni verði nýtt og fremur horft til aðgerða sem styðja hana heldur en einungis aðgerða sem draga tímabundið úr áfalli þeirra atvinnugreina sem verst hafa komið út úr faraldrinum.

Í þessu samhengi veldur staða ríkissjóðs umtalsverðum áhyggjum. Því miður nýtti fyrri ríkisstjórn ekki það svigrúm sem skapaðist fyrir faraldurinn til þess að búa í haginn. Þess í stað var rekstri ríkissjóðs leyft að síga á ógæfuhliðina og var hann orðinn ósjálfbær þegar á árinu 2019. Ríkisstjórnin jók útgjöld án þess að horfa til þess að styrkja tekjugrunn ríkissjóðs og styðja við framleiðniaukningu í atvinnulífinu.

Þrátt fyrir þetta, og þrátt fyrir að við sjáum fram á langvarandi áhrif veirukrísunnar og óvenjulega mögur ár, þá er ekkert aðhald eða stefnu um að styrkja aðlögun atvinnulífsins að finna í frumvarpi til fjárlaga ársins 2022. Þegar litið er fram hjá lækkun útgjalda vegna niðurfellingar á sérstökum tímabundnum Covid-aðgerðum, þá situr eftir að engin aðhaldskrafa er gerð í ríkisfjármálunum. Ekki er annað að sjá en að það sé von ríkisstjórnarinnar að lausnirnar muni falla af himnum ofan. Eða á að fara í útrás með íslenskan ríkisrekstur?

Rekstur ríkissjóðs var þegar í járnum áður en heimsfaraldurinn skall á. Eftir útgjaldavöxt áranna á undan hafði ríkissjóður ekkert svigrúm til að bregðast við neyðarástandinu með öðrum hætti en aukinni skuldsetningu. Því hafa allar aðgerðir verið byggðar á lántöku, að mestu erlendri áhættulántöku. Það gefur augaleið að með því áframhaldi er sjálfbærni ríkisfjármálanna ógnað. Ekki verður hjá því komist að langvarandi hallarekstur ríkissjóðs bitni á þjóðinni. Hann mun leiða til þenslu, sem vinnur gegn markmiðum Seðlabankans um stöðugleika, og kallar á enn frekari vaxtahækkanir með tilheyrandi afleiðingum fyrir skuldsettar fjölskyldur og fjárfestingargetu fyrirtækjanna. Sífellt stærri hluti af tekjum ríkisins fer í að standa undir skuldum. Ef útgjöldin styðja ekki hagvöxt mun á endanum koma að skuldadögum. Skera verður niður þjónustu ríkisins eða hækka skatta — skatta sem þegar eru með því mesta sem þekkist í heiminum. Aukin skattlagning og aukin umsvif hins opinbera skerða getu hagkerfisins til verðmætasköpunar og bitna á hagvexti til lengri tíma. Þessi þróun er því mikið áhyggjuefni.

Þær tillögur sem ríkisstjórnin leggur fram til hækkunar tekna eru ekki lagðar á þar sem neikvæðar afleiðingar verða minnstar. Engin tillaga er um raunhæfa skattlagningu auðlinda, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur meðal annars ítrekað bent á að væru afar ákjósanlegir tekjustofnar fyrir íslensk stjórnvöld, einmitt vegna þess hve lítil neikvæð áhrif þeir tekjustofnar hafa á atvinnulífið.

Ekki á að skoða að fá mat markaðarins á raunverulegu virði kvótans eða fara að dæmi Norðmanna og leggja skatta á orkufyrirtæki. Þess í stað eru áfengisgjöld hækkuð um 3,5 milljarða króna á milli ára. Gjöld sem bitna einna helst á afar veikburða veitinga- og ferðaþjónustugeira og auðvitað almenningi sem neytir áfengis, það gefur augaleið. Og á sama tíma og áfengisgjald er hækkað upp í 23,8 milljarða króna er skollaeyrum skellt við ósk SÁÁ um hækkun framlaga um 300 millj. kr.

Víðar má gera athugasemdir við einstakar fjárhæðir í fjárlögum. Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Frumtök bentu t.d. á í umsögn sinni að lyfjakostnaður fyrir árið 2022 væri vanáætlaður um 2,5 milljarða króna miðað við frummat Sjúkratrygginga Íslands. Frummat SÍ hefur yfirleitt verið afar nálægt endanlegum kostnaði, enda byggir það á hlutlægri og vandaðri greiningarvinnu. En vanáætlun á borð við þessa getur aukið þrýsting og stefnt lyfjaöryggi á landinu í hættu. Viðbótarframlög til örorkulífeyrisþega eru góðra gjalda verð. Þegar hækkun framlags er leiðrétt miðað við verðbólgu situr þó afar lítið eftir, eða 1,5% hækkun, sem er að raunvirði 4.000 kr. á mánuði af fullum örorkulífeyrisgreiðslum.

Umboðsmaður Alþingis sinnir mikilvægu hlutverki og kveðst vanta 36 millj. kr. til að geta sinnt skilvirku eftirliti með raunhæfum hætti, en slíkt aðhald er sérstaklega mikilvægt hjá ríkisstjórn sem leggur ofuráherslu á ríkisrekstur. Kannski er það einmitt þess vegna sem embættinu er haldið veiku.

Ísland er í mjög eftirsóknarverðri stöðu til að sýna fordæmi í orkuskiptum og varða veginn að kolefnishlutlausu velferðarsamfélagi. Við búum yfir einstöku umfangi endurnýjanlegrar orku og þekkingu til að nýta hana til orkuskipta. Þrátt fyrir þetta sjást þess ekki merki að ríkisstjórnin ætli sér að leggja sérstaka áherslu á loftslagsmál í fjárlögum, í það minnsta alls ekki jafn mikla áherslu og tilefni er til. Við erum einmitt á krítískum tímapunkti þar sem mikilvægt er að róa öllum árum að samdrætti á losun mengandi lofttegunda. Viðreisn hvetur ríkisstjórnina til að ganga mun lengra í notkun á hagrænum hvötum til að drífa þessa þróun. Hækka þarf kolefnisskatta og á sama tíma auka stuðning við fjárfestingu sem dregur úr losun. Hækkun kolefnisskatta getur haft neikvæð áhrif á viðkvæma hópa en tryggja má tekjuhlutleysi gagnvart þeim með því að lækka önnur opinber gjöld til jafns á móti. Þannig má skapa hvata fyrir fyrirtæki og heimili í landinu til að bregðast hratt við.

Ýmsar aðrar lausnir eru tiltækar í loftslagsmálum sem myndu varla setja mark sitt á fjárlögin, eins og t.d. krafa um að fyrirtæki setji sér losunarmarkmið. Við skulum ekki gleyma því að allar aðgerðir í þessa átt munu stuðla að því að gera lífsgæði á Íslandi og í heiminum öllum betri og auka veg íslenskrar framleiðslu á heimsvísu.

Forseti. Langvarandi veirufaraldur kallar á endurskoðun á viðbrögðum stjórnvalda. Ekki er hægt að mjólka meira út úr heilbrigðiskerfinu ef það á ekki að sligast undan áframhaldandi álagi. Breyta þarf áherslum í sóttvörnum og búa atvinnulífinu meiri fyrirsjáanleika. Styðja þarf áframhaldandi aðlögun atvinnulífsins að nýjum raunveruleika í samfélagi þar sem Covid fer um. Þetta þarf að gera án þess að setja ríkissjóð á hliðina. Ríkið þarf að draga strax til baka þensluhvetjandi aðgerðir í þeim geirum sem best hafa farið út úr samdrætti undanfarinna missera. Setja þarf fram áætlun um að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs til að byggja undir stöðugleika. Stöðugleiki er besta leiðin til að hvetja atvinnulífið til áframhaldandi sóknar og aukinnar verðmætasköpunar. Án hans verður vilji þess til að taka áhættu og getan til langtímauppbyggingar takmörkuð með ófyrirséðum kostnaði fyrir þjóðina alla.

Ekkert bólar á fyrirhyggju um þessi atriði hjá ríkisstjórninni í þessu fjárlagafrumvarpi.

Forseti. Þetta er stöðnunarfrumvarp. Þetta er frumvarp þeirra sem eiga sér takmarkaða sýn um framtíðina. Þetta er eiginlega, frú forseti, frumvarp gærdagsins.