152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu. Mig langar að spyrja um tvö atriði í hvoru andsvari. Nú er fjallað um það í breytingartillögu minni hlutans, sem Viðreisn stendur líka að, að fjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Við vitum að þúsundir manna eru á biðlistum sem stundum taka ár eða lengur, sem er náttúrlega ekki gott fyrir geðheilbrigði fólks, að þurfa að bíða svo lengi. Kostnaðurinn við sálfræðiþjónustu er mikill og þetta er eitthvað sem ríka fólkið getur borgað án þess að þurfa kannski að hugsa mikið um það. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hann telur að sé ástæðan bak við hina skýru andstöðu ríkisstjórnarflokkanna og svo við tölum nú ekki um hegðun hæstv. fjármálaráðherra hér í gær þegar þetta var nefnt. Hann kallaði það skrípaleik og ýmislegt annað. Hvað skýrir þessa andstöðu? Hverjar telur hv. þingmaður að verði afleiðingar þess að við setjum ekki fjármagn í þessi mál eins og svo nauðsynlega þarf og er í raun, eins og hv. þingmaður nefndi, komið rúmt ár síðan samþykkt var að þyrfti að gera?