152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:26]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég skal leitast við að svara þeim eftir bestu getu. Ef við byrjum bara á því þá sýna tölur það svart á hvítu að andleg líðan fólks er ekki nógu góð og það eru margir sem búa við vanda af þeim sökum. Við vitum líka að það er ekki síst meðal ungs fólks. Þetta er svo sem alls staðar og ekki síst hjá hópum sem búa við kröpp kjör og erfiðar félagslegar aðstæður. Það er því mjög mikilvægt að koma til móts við þetta ágæta fólk vegna þess að afleiðingarnar af því ef það er ekki gert geta orðið svo miklu dýrari fyrir samfélagið; ef fólk verður óvirkt eða getur ekki sinnt sínu lífi og sínum störfum. Það er mjög kostnaðarsamt.

Varðandi kostnaðinn er það auðvitað þannig að það kostar að leita sér þjónustu af þessu tagi. Alþingi hefur gert sér grein fyrir þessu og samþykkti þess vegna lög um að fella þessa þjónustu undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Hins vegar hefur hnífurinn staðið í kúnni að fjármagna það þannig að það verði almennilega virkt úrræði. Ég veit satt að segja ekki hvað veldur. Allir tala um að þetta sé gríðarlega mikilvægt, en þegar til stykkisins kemur þá skortir einhvern veginn á viljann. Ég ætla ekki að fjalla um hegðun og orð hæstv. fjármálaráðherra í pontu.