152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þingmanninum yfirferðina. Ég staldraði dálítið við þegar hann vék að hinum ólíku gjöldum sem ríkisstjórnin hefur valið að hækka ekki þannig að þau endurspegli kostnaðinn sem þau eiga að standa straum af. Auðlindagjöld endurspegla ekki það sem er eðlileg renta þjóðarinnar af auðlindinni, kolefnisgjöld endurspegla ekki þann samfélagslega kostnað sem er af losun kolefnis út í umhverfið.

Mig langar að staldra sérstaklega við seinni liðinn. Þetta var heilmikið rætt þegar fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var stofnuð og hennar fyrsta verk var að hætta við fyrirhugaða hækkun kolefnisgjalds sem sett var af stað í tíð fjármálaráðherra Viðreisnar. Framlag ríkisins til grænna umskipta þarf ekkert endilega að vera dýrt fyrir ríkissjóð. Kolefnisgjöld og önnur gjaldtaka á mengandi athafnir og starfsemi getur staðið straum af megninu af kostnaðinum við grænu mótvægisaðgerðirnar. Það er bara ekki staðan í dag. Í dag erum við t.d. með gríðarlega dýrt ívilnanakerfi fyrir fólksbíla, fleiri milljarðar á ári sem fara í að niðurgreiða rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla og meira að segja nokkra bensínbíla til bílaleigna. En það væri hægt að núlla þann kostnað út frá ríkissjóði séð með því að auka gjaldtöku á bílana sem menga mest. Það myndi gera þetta fjárhagslega hagkvæmara fyrir ríkissjóð. Það myndi líka efla hagrænu hvatana fyrir samfélagið að hraða umskiptunum. Þetta er ekki einhver flippuð anarkistahugmynd heldur er þetta kjarninn í því sem Alþjóðabankinn, OECD og aðrir sérfræðingar (Forseti hringir.) segja varðandi þessi mál. Þessir aðilar eru að segja við ríki: (Forseti hringir.) Leggið á kolefnisgjald, skattleggið það sem mengar en notið þann pening til að létta fólki að velja græna kostinn. (Forseti hringir.) Af hverju vantar þetta hér?

(Forseti (LínS): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörk.)