152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig á því að að einhverju leyti er verið að sýna ráðdeild og gera hlutina þannig að við séum í stakk búin til að bregðast við af krafti, og ég virði það þó að ég sé ósammála um nálgunina. Það sem ég var að benda á var að fjárlögin eru skrifuð þegar fólk var töluvert bjartsýnna en það er nú þegar faraldurinn er á uppleið aftur og við höfum enn möguleika til að breyta fjárlögum. Á sama tíma sjáum við vísbendingar um að heilar atvinnugreinar, mikilvægar atvinnugreinar, eru að veikjast og eru komnar að fótum fram; afþreyingariðnaðurinn og listir og menning. Þess vegna spyr ég: Af hverju gerum við ekki það augljósa, að í staðinn fyrir að bíða í eitt ár og koma þá í fjárauka og lappa eitthvað upp á hlutina blásum við til sóknar? Viljum við ekki taka það alvarlega að 20% af öllu sjálfstæðu listafólki á landinu hafi hrökklast burt úr greininni? Hefði nú ekki eitthvað verið gert ef fimmti hver sjómaður hefði synt í land, svo ég tali nú ekki um ef fimmti hver bankamaður hefði hætt í vinnunni? Þá er ég hræddur um að eitthvað hefði verið gert. Þetta er grafalvarlegur hlutur. Okkur er bara enn þá of tamt á Íslandi að líta á listir sem einhver kirsuber á trénu. Það væri miklu nær að hugsa um þær sem ræturnar sem tréð vex upp af. Þannig gera þessar stóru þjóðir í kringum okkur sem við viljum helst mæla okkur við. Þær hampa þessu fólki, þær lyfta því upp og gera því kleift að lifa. Við eigum að styrkja þessa grein, við getum brugðist við núna og þið hafið enn þá tíma.