152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór kannski ekki beinlínis að gráta eins og hv. þingmaður þegar ég sá fjárlögin. Það var meira eins og manni væri kippt úr unaðslegum næturdraumi yfir í kaldan veruleika desembermánaðar. Þetta var kannski meira það sem ég átti von á, bara einfaldlega vegna þess að reynsla síðustu fjögurra ára sýnir okkur að þessir ólíku flokkar eiga erfitt með að taka afgerandi stefnu í einhverja átt vegna þess að þeir deila of mikið innbyrðis. Innsýnin í hvað þau eru raunverulega að hugsa, ég kom inn á það í ræðunni, það eru fjárlögin. Orðum verða nefnilega að fylgja efndir. Orðin eru í stjórnarsáttmálanum, efndirnar í fjárlögunum. Það er svo sem ekkert meira um það að segja.