152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:55]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Já, ég tek undir orð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Eins og ég vék að hér áðan gerði hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson þetta að umræðuefni í morgun. Það er því miður þannig að þau fjárlög sem við erum hér að fjalla um eru því marki brennd að vera miðuð við fortíðina, meira en ég held að eðlilegt sé. Í mínum huga er það þannig að stjórnmálamenn skapa ekki störf, þeir geta hugsanlega eytt þeim en tæplega skapað þau. Það er atvinnulífið sem skapar störf. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið til að geta skapað störf, til að góðar hugmyndir komist til framkvæmda. Og í því efni eru þar af leiðandi almennar aðgerðir að jafnaði árangursríkari en sértækar aðgerðir, svo ég tek heils hugar undir þessa ábendingu.