152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:21]
Horfa

Þórunn Wolfram Pétursdóttir (V):

Forseti. Ég vil byrja á að skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að leysa strax hnútinn sem kominn er á áætlanirnar um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði ef hæstv. ráðherra er ekki þegar búinn að því. Skjólgarður er löngu úrelt bygging og við getum einfaldlega ekki boðið fólkinu okkar upp á að bíða lengur eftir mannsæmandi heimilisaðstæðum.

Ég er í fyrsta skipti í ræðustól á Alþingi og við ræðum hér fjárlög ársins 2022, lög sem varpa ljósi á stefnu og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það er margt sem mig langar að tala um og af nógu að taka en ég ætla að halda mig að mestu við loftslagsmálin, þá sérstaklega þann hluta sem snýr að vernd, endurheimt og sjálfbærri nýtingu vistkerfa landsins. Loftslagsmálin eru nefnilega ekki eingöngu debet/kredit-bókhald um samdrátt í losun og aukna bindingu eins og margir vilja halda. Þau snúast um miklu flóknara kerfi hringrásar jarðar og þá fyrst og síðast að koma kolefnishringrásinni í jafnvægi á ný. Það gerum við með því að endurskoða öll okkar mannlegu kerfi, hvort sem það eru félagsleg kerfi, umhverfis- eða efnahagskerfi með það fyrir augum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu samhliða því að draga úr álagi á náttúruauðlindir, stöðva ofnýtingu og vernda náttúruna, móður jörð.

Ég gæti talað um ástand íslenskra vistkerfa sem er enn, þrátt fyrir aldalanga þrotlausa vinnu, slæmt því að áskorunin er svo stór. Tugþúsundir ferkílómetra lands hafa tapað gróður- og jarðvegshulu í gegnum aldirnar og það eru yfir 50% af vistkerfi landsins. Við eigum gríðarlega mikið ógert í þeim efnum.

Ég gæti talað um að alþjóðasamfélagið hefur síðustu árin opnað augun hratt fyrir mikilvægi þess að vernda og endurheimta vistkerfi jarðar og líffræðilega fjölbreytni þeirra sem loftslags- og náttúruverndaraðgerð og hvernig þess sér stað í framtíðarstefnumörkun stjórnvalda víða um heim í kjölfar faraldursins. Eða um áratug Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa til 2030 og hvernig bæði þéttbýli og dreifbýli heimsins stefna á að vernda og endurheimta fjölbreytt og virk vistkerfi, m.a. til að auka bindingu koltvísýrings og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga samhliða því að vernda líffræðilega fjölbreytni og bæta almennt lífsskilyrði. Lögð er áhersla á að vinna skuli með náttúrunni og beita hennar eigin lausnum til að leysa áskoranir tengdar til að mynda aukinni hættu á flóðum, þurrkum og annarri náttúruvá. Þessar lausnir eru kallaðar náttúrumiðaðar lausnir og það er gaman að segja frá því að Íslendingar hafa nýtt sér þessa aðferðafræði um árabil, m.a. til að byggja upp hrunin vistkerfi til að auka seiglu þeirra og gera þau hæfari til að draga úr áhrifum náttúruvár, svo sem öskufalls í kjölfar eldgosa. Dæmi um slíkt verkefni er Hekluskógaverkefnið sem snýst um að auka útbreiðslu birkiskóga í nærumhverfi Heklu. Annað dæmi er verkefni sem er í undirbúningi á áhrifasvæði Skaftár. Þar er stefnt að því að auka útbreiðslu birkiskóga og víðikjarrs til að draga úr mori eða leirfoki í kjölfar Skaftárhlaups. Það er þannig að Skaftfellingar kalla þetta fína efni sem smýgur alls staðar mor.

Ég gæti líka fjallað um hversu mikla áherslu þessi ríkisstjórn lagði á vernd og endurheimt vistkerfa sem öfluga loftslags- og náttúruverndaraðgerð á síðasta kjörtímabili og hversu einkennilega það lítur út fyrir leikmanninn að sama ríkisstjórn hafi nú ákveðið að færa þær tvær stofnanir sem sinna þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki úr þverfaglegu ráðuneyti umhverfismála yfir til hagsmunaráðuneytis landbúnaðarmála. Síðast þegar ég vissi sinnti það ráðuneyti eingöngu málefnum landbúnaðarins, ekki almennum málefnum umhverfis- og náttúruverndar í dreifbýli og þéttbýli eins og vernd og endurheimt vistkerfa er. Ég gæti reyndar líka talað um hvað ég er ánægð með að málefni nytjaskógræktar og beitarstjórnar útjarðar sé að færast frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til hagsmunaráðuneytis landbúnaðarmála. Þetta er jú sannarlega landbúnaðarmál. Ég treysti líka hæstv. ráðherra landbúnaðarmála vel til að leysa úr fyrirliggjandi verkefnum, svo sem frágangi á reglugerð um sjálfbæra landnýtingu. Það er orðið löngu tímabært að landnýtingu verði stýrt út frá sömu forsendum og fiskveiðum er stýrt, þ.e. út frá ástandi auðlindarinnar sem er í þessu tilfelli gróðurinn, ekki nýtingarformið.

Það sem stendur hjarta mínu næst hins vegar er hvernig stjórnvöld marka stefnu málaflokks loftslagsmála sem tengjast vernd, endurheimt og nýtingu vistkerfa landsins, hversu metnaðarfull markmið þeirra eru, hvort þau eru sértæk, mælanleg, afmörkuð og raunhæf, hvort þau séu ofin inn í alla stefnumótun og tengist og hvort þau séu fjármögnuð. Ég ætla því frekar að fjalla um þessi mál og byrja þá á því að bakka aðeins í tíma.

Ísland eins og Noregur ákvað að óska eftir því við Evrópusambandið að fá að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda innan Parísarsáttmálans árið 2015. Að öðrum kosti hefðum við þurft að senda inn sjálfstætt markmið varðandi skuldbindingar samkvæmt Parísarsáttmálanum um samdrátt í losun á tímabilinu 2021–2030 sem taka þarf tillit til allrar losunar, einnig stóriðjunnar. Það hefði reynst Íslandi stór og erfiður biti í háls. Í kjölfarið hélt litla Ísland áfram með sína stefnumótunarvinnu í loftslagsmálum á eigin forsendum, þrátt fyrir að það hefði legið ljóst fyrir að ákvörðunin um að taka þátt í sameiginlegu markmiði ESB og Noregs kallaði á að við þyrftum að innleiða nýtt fyrirkomulag ESB um skipulag og framkvæmd svokallaðs landnýtingarflokks loftslagsbókhaldsins, sem sagt svokallaðan LULUCF. Ég ætla reyndar ekkert nánar í það hér en það hefur að sjálfsögðu áhrif á alla vinnu okkar að við tökum bara þátt í að ákveða að vera með en ekki í að byggja upp hvernig við ætlum að sinna því, þannig að við tökum ekki þátt í stefnumörkuninni og stefnumótuninni sem fer fram á vettvangi Evrópusambandsins í þessum málaflokki. Það er mjög bagalegt.

Tíminn sem við höfum fyrir kröftuga viðspyrnu í loftslagsmálum er naumur og því voru það mér mikil vonbrigði þegar þessi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum síðla árs árið 2017, sem sagt fyrra kjörtímabilið, og ákvað þá að henda þeim drögum að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem lágu fyrir þegar stjórnin tók við. Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu upp á Vinstri græn að nýta ekki þá flottu vinnu sem búið var að leggja blóð, svita og tár í allt árið 2017 en þess í stað fara aftur í sömu vinnu og tapa þannig heilu dýrmætu ári. En það er víst enginn annars vinur í pólitík.

Ríkisstjórnin talar gjarnan um að á síðasta kjörtímabili hafi þau lagt fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Það segir samt ekkert til um hversu vel áætlunin dekkar áskoranirnar fram undan. Það er alveg ljóst að raunþörfin fyrir endurheimt vistkerfa er svo miklu meiri en lagt er upp með í áætluninni. Svo jú, fram sett markmið eru kannski fjármögnuð en markmiðin ná alls ekki utan um vandann. Sem dæmi má nefna markmið um endurheimt votlendis. Fyrir liggur að það eru um 2.600 km² af framræstu votlendi sem við þurfum að meta og fara vel yfir hvort hægt sé að endurheimta. Það er ekki hægt að taka það allt. Við erum alveg meðvituð um það. Ég er ekki að segja að þessi tala sé það sem hægt er að endurheimta alveg hér og nú. En þetta eru engu að síður 260.000 hektarar af framræstu votlendi sem við þurfum að skoða. Þetta land er ekki í landbúnaðarnotkun. Markmið stjórnvalda engu að síður í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er að frá og með næsta ári verði endurheimtir 500 hektarar árlega. Það sjá allir að þörfin er margfalt meiri. Þetta á líka við um þurrlendisvistkerfin, ég ætla bara ekki að fara inn í það núna. Það er allt of langt mál að bæta við.

Ef vilji er fyrir hendi þá gæti ríkisstjórnin ákveðið að feta í fótspor skoskra stjórnvalda t.d. og sett sér jafn metnaðarfull markmið og Skotar gera á sviði endurheimtar votlendis. Skosk stjórnvöld ætla sér nefnilega að endurheimta 250.000 hektara af framræstu votlendi eða mólendi, „peatlands“ í þeirra tilfelli, eða um 25.000 hektara á ári frá 2022 til 2025. Í þetta verkefni hafa þau merkt, eingöngu í þetta verkefni, ég vil taka það alveg skýrt fram, eftir minni bestu vitneskju, um 250 milljónir punda. Ég leyfi mér að segja að ef Skotar geta þetta þá getum við gert alla vega helminginn af því.

Fjárlögin eru verkfæri til að skapa hvata, ekki bara fyrir stjórnvöld heldur til að tryggja aðkomu almennings og fyrirtækja í landinu að vernd loftslagsins. Ríkisstjórnin hefur því miður sinnt loftslagsmálum eins og þau séu einkamál hennar en þau skipta okkur öll lykilmáli og við þurfum öll að vera þátttakendur í breytingum ef þær eiga að hafa raunveruleg áhrif.

Viðreisn hefur til að mynda lagt til að kolefnisgjöld verði aukin og önnur gjöld lækkuð á móti, að þau sem menga borgi og að þau sem draga úr losun njóti ágóðans af því. Ég vildi svo óska að sú framtíðarsýn kæmi fram í fjárlögum ríkisstjórnarinnar en hún gerir það ekki.

Forseti. Eitt er það sem skiptir meira máli en annað. Það er að hér verði tryggð góð lífsskilyrði til framtíðar. Forsenda þess er að við séum sjálfbært samfélag sem lifir í sátt við náttúruna, við móður jörð, að komandi kynslóðir njóti sömu gæða og auðlinda og við gerum í dag. Til þess að það verði þarf hraðan viðsnúning og nýja stjórnarskrá. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil og ég óska þess eins að hún standi undir þeirri ábyrgð.