152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:03]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og það er engin viðkvæmni í þessu af minni hálfu. Ég er bara ánægður með að fá að koma upp og tjá mig um þetta. Ég vil undirstrika það að í fámennu samfélagi er hver einasti maður dýrmætur. Hver einasta rödd er dýrmæt. Lýðræðið er gott vegna þess að þar fá einmitt litbrigði mannfélagsins að njóta sín og ýmsar ranghugmyndir, jafnvel mínar ranghugmyndir og annarra, fást leiðréttar best með því að spegla þær í umræðu. Það er akkúrat hættan sem ég sé við þetta nýja stjórnarfar sem ég hef kallað á Íslandi, þ.e. einhvers konar fámennis- og sérfræðingastjórnarfar en ekki lýðveldisstjórnarfar og lýðræðisstjórnarfar í klassískum skilningi. Besta vörnin sem við höfum er að treysta undirstöðu lýðveldisins og hverfa ekki í óttann og kunna að leggja raunsætt mat á ótta og þá hættu sem steðjar að hverju sinni og til þess þurfum við allar hendur upp á dekk til að tjá sig og telja kjark í þá sem hér ráða för. Ég er ekki að leggja til neitt óraunsætt eða neinn galgopahátt í þeim efnum, bara yfirvegaða, fræðilega og hófstillta umræðu sem mér hefur þótt skorta á. Ég hef saknað þess að þingið hafi ekki látið meira til sín taka í þessum efnum og að það hafi í raun og veru verið settar reglur um allt daglegt líf almennings án aðkomu þingsins, sem er miður. Ég vona að á því verði gerð bragarbót á komandi ári.