152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að þetta þurfi kannski að fara fram í vinnufundaformi hjá okkur í nefndinni. Stundum hefur verið sagt að við þurfum að halda svona gulumiðafundi. Kannski er það þannig að við þurfum að láta vaða dálítið á súðum og koma okkur saman um fyrstu skrefin, hvar við myndum vilja byrja, af því að við vitum að við náum ekki yfir heildina fyrsta kastið. En ef við myndum vilja sjá einhvern árangur jafnvel strax í næstu fjárlagagerð þá held ég að við þurfum að reyna að horfa á stóru myndina, reyna að áfangaskipta, og í fyrsta lagi auðvitað að komast að því hvað það er sem við viljum og hvernig við myndum vilja breyta, hvort við náum saman um það hvernig við viljum sjá þetta. Allt í þágu þess að þetta sé gagnsætt, ég er sammála því, og að við getum fylgt því eftir að verið sé að fara með fjármuni eins og ætlað er að nýta þá. Þannig að ég tek heils hugar undir þetta og ég held að við séum öll í nefndinni til í að gera þetta. Ég treysti því alveg að svo sé.