152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. Að álitinu stendur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar; ég sem hér stend, Guðrún Hafsteinsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir. Ég vil þakka nefndinni fyrir gott og málefnalegt samstarf á meðan á umfjöllun hennar stóð. Líkt og fram kemur í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund hina fjölmörgu hagaðila og sérfræðinga, bæði frá ráðuneytum sem og ýmsum hagsmunasamtökum. Mér telst til að nefndin hafi hitt um 40 manns og móttekið um 30 umsagnir.

Það sem ég vil helst draga fram í frumvarpinu er eftirfarandi: Það er framlenging á átakinu Allir vinna, leiðrétting sóknargjalda til að tryggja starfsemi trúfélaga og hækkun frítekjumarks atvinnutekna eldri borgara. Mun ég koma að þessum breytingum síðar í mínu máli.

Mestum tekjuauka skilar 2,5% hækkun krónutöluskatta og gjaldskráa í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins, þ.e. hækkun á kolefnisgjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbaki. Þessi tekjuauki er áætlaður um 2,4 milljarðar.

Ég mun nú fara yfir þær breytingartillögur sem nefndin gerir. Meiri hluti nefndarinnar gerir það að tillögu sinni að átakinu Allir vinna verði fram haldið á árinu 2022 en með breytingum þó þar sem dregið verði úr endurgreiðsluhluta virðisaukaskatts eftir því sem líður á árið þannig að eftir 31. ágúst verði endurgreiðsluhluti átaksins orðinn sá sami og hann var fyrir heimsfaraldur Covid. Með þessum hætti telur nefndin að hægt verði að milda þau áhrif sem lækkunin kemur til með að hafa á byggingariðnaðinn í landinu.

Nefndin telur ekki tímabært að svo stöddu að fyrirkomulag endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna eins og það er útfært í ákvæði til bráðabirgða við lög um virðisaukaskatt verði með öllu fellt niður. Leggur nefndin því til að úrræðið verði framlengt til 31. ágúst árið 2022 að því er varðar endurgreiðslu til byggjenda vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað íbúðarhúsnæðis og við viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði. Frá 1. september 2022 miðist endurgreiðslan við 60%. Aðrir liðir sem tilgreindir eru í ákvæðinu verði framlengdir til 30. júní árið 2022 en ívilnun vegna þeirra falli brott 1. júlí 2022, að öðru leyti en því að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálningu eða bílaleiðréttingar falli niður 1. janúar 2022.

Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins er áformað að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um virðisaukaskatt á árinu 2022, þar með talið ákvæðum um virðisaukaskatt í byggingariðnaði og að fyrirkomulag skattskyldu í iðnaðinum verði skoðað heildstætt. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að í þeirri vinnu verði jafnframt mörkuð skýr stefna til framtíðar um fyrirkomulag endurgreiðslu virðisaukaskatts til einstaklinga vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds.

Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á bifreiðagjaldi um 2,5% vegna verðlagsbreytinga. Nefndin leggur til að fasti hluti bifreiðagjaldsins, lágmarksbifreiðagjald, hækki um 1.000 kr. til viðbótar við það sem lagt er til í frumvarpinu. Er það mat nefndarinnar að við stöndum frammi fyrir grundvallarbreytingum hvað varðar innheimtu af ökutækjum. Er þessi hækkun liður í því að bregðast við tekjuminnkun vegna minni sölu jarðefnaeldsneytis.

Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að eftirlitsgjald sem lífeyrissjóðir greiða til Fjármálaeftirlitsins breytist. Eftirlitsgjaldið skiptist í tvennt, annars vegar fast gjald og hins vegar breytilegt gjald. Í 11. gr. frumvarpsins er m.a. lögð til breyting á eftirlitsgjaldi lífeyrissjóða þannig að þáttur fastagjalds í heildarálagningu lífeyrissjóða verði hækkaður úr 60 í 70%. Í umsögnum sem bárust nefndinni komu m.a. fram athugasemdir, sérstaklega frá minni sjóðum, varðandi það fyrirkomulag að svo stórum hluta gjaldsins sé skipt jafnt á sjóðina, enda feli fyrirkomulagið í sér að hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu er hærra hjá minni lífeyrissjóðum en þeim eignameiri. Nefndin telur að svo stöddu ekki forsendur fyrir því að þáttur fastagjalds í heildarálagningu lífeyrissjóða verði hækkaður með þeim hætti sem gert er ráð fyrir og leggur til breytingu þess efnis að hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu verði óbreytt eða 60%.

Meiri hlutinn áréttar það sem fram kom í nefndaráliti meiri hluta þáverandi efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021 um mikilvægi þess að fram fari endurskoðun á fyrirkomulagi eftirlitsgjalds með tilliti til þess að tryggja frekar jafnræði milli ólíkra lífeyrissjóða og sanngjarna skiptingu gjaldsins. Ekki er að sjá að sú endurskoðun hafi farið fram á árinu.

Í 23. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um sóknargjöld bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að föst krónutala sóknargjalda verði 985 kr. á mánuði árið 2022 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna að fjárhæð sóknargjalda breytist í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga.

Nefndin bendir á að í greinargerð frumvarpsins virðist gæta misskilnings þar sem segir í greinargerð frumvarpsins að lagt sé til að föst krónutala hækki úr 980 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 985 kr. eða um 0,5%. Samkvæmt ákvæði XIV til bráðabirgða við lögin nam sóknargjald 1.080 kr. á mánuði árið 2021. Er því lagt til í frumvarpinu að sóknargjöld lækki. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að sóknargjöld verði 1.107 kr. á mánuði árið 2022 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Hækkunin nemi því 2,5% sem er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, taka skv. 1. mgr. 1. gr. laganna til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Í minnisblaði félagsmálaráðuneytisins, dagsett 17. desember 2021, leggur ráðuneytið til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt til 31. desember 2022. Í því sambandi er bent á að alls óvíst er hversu lengi til viðbótar sóttkví verði beitt af hálfu heilbrigðisyfirvalda til þess að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru. Nefndin tekur undir tillögur ráðuneytisins og gerir þær að sínum.

Félagsmálaráðuneytið lagði til að framlengja út næsta ár bráðabirgðaákvæði þannig að á árinu 2022 verði áfram miðað við að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára skuli eiga rétt á 6% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni eigi hann einungis rétt til grunnatvinnuleysisbóta eða þegar að loknu tímabili tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Nefndin tekur undir framangreinda tillögu ráðuneytisins og gerir hana að sinni.

Meiri hlutinn leggur til í samráði við félagsmálaráðuneytið að skerðingarhlutfall örorkulífeyris, skv. 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, lækki úr 25% í 11%. Í 3. kafla fyrrgreinds minnisblaðs félagsmálaráðuneytisins segir að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022 sé gert ráð fyrir að bætur örorkulífeyrisþega hækki um 5,6%. Sú breyting muni að óbreyttu leiða til þess að svokallað „fall á krónunni“ muni aukast, þannig að hækkun á tekjum lífeyrisþega um eina krónu geti leitt til þess að hann missi rétt til greiðslu örorkulífeyris og tengdra greiðslna. Breytingartillögunni er ætlað að stemma stigu við framangreindum vanda og fyrirbyggja að örorku- og endurhæfingalífeyrisþegar geti misst háar bótafjárhæðir við það eitt að tekjur þeirra hækki smávægilega. Nefndin leggur áherslu á að fundin verði lausn til framtíðar hvað þetta mál varðar.

Nefndin leggur til, í samráði við félagsmálaráðuneytið, að sett verði sérstakt frítekjumark á atvinnutekjur einstaklinga sem fá greiddan hálfan ellilífeyri. Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að frítekjumark á atvinnutekjur þeirra sem fá greiddan fullan ellilífeyri verði hækkað úr 1.200.000 kr. á ári í 2.400.000 kr. Til að hálfur lífeyrir geti nýst sem skyldi er lagt til að samtímis verði lögfest sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra sem fá greiddan hálfan ellilífeyri sem nemi sömu fjárhæð. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins um málið og tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

Lagt er til að ívilnanir vegna tengiltvinnbifreiða verði afnumdar og ræddi nefndin það út frá ýmsum sjónarhornum. Nefndin leggur áherslu á að reynt sé að hraða orkuskiptum bifreiða hér á landi sem frekast sé unnt. Á hitt vil ég þó benda að ýmis rök benda til þess að ekki sé tímabært að svo stöddu að afnema þær ívilnanir nú og því tel ég rétt að þau mál verði skoðuð betur með tilliti til þess hvernig við getum fjölgað hreinorkubifreiðum og fækkað bílum er ganga fyrir jarðefnaeldsneyti enda er það markmið okkar.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til í nefndaráliti sínu eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að þessu sögðu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali og að málið gangi aftur til nefndar.