152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:08]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að koma hér upp til að hrósa minni hluta nefndarinnar enda hefur samstarfið við hann og við aðra nefndarmeðlimi verið til fyrirmyndar. Ég er auðvitað nýliði á þinginu og á kannski eftir að læra að vera bara fúl á móti. En það er jákvætt að sjá að með nýju fólki í stjórnarandstöðu virðist horfið frá þeirri ótrúlegu hugmynd að lausnin út úr veiruástandinu sé að fjölga opinberum starfsmönnum, heldur sé hvatt til þess að búin séu til skilyrði fyrir virka samkeppni og verðmætasköpun. Í áliti minni hlutans er þó auðvitað að finna kunnuglegan tón þar sem hvatt er til aukinnar skattlagningar, hvatt til aukinna álaga á fólk og fyrirtæki. Það breytist víst seint með nýjum mannafla. Álitið fer hins vegar svolítið út og suður þegar lýst er yfir áhyggjum af hækkun skattbyrði og mér fannst ég ekki geta greint annað en aðdáun hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannsson á uppleggi og útleggingu frá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann hvetur hann til dáða í þeim efnum.

Að lokum má ég til með að nefna loftslagsmálin, líka til að hrósa en auðvitað er samt hvatt til aukinna álaga þar. Það kemur lítið á óvart. (Forseti hringir.) Hins vegar er óhætt að taka undir hvatningu minni hluta nefndarinnar um að gagnsæi og aðhald sé aukið í loftslagsmálum og raunverulegur árangur aðgerða sé hafður að leiðarljósi (Forseti hringir.) við ákvarðanatöku um markmiðssetningu í þessum málaflokki. Það er góð hvatning og áminning.