152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leitast við að lækka þetta gjald. Ég hef alltaf sagt að það hafi hækkað allt of mikið. Í þetta skipti er einungis um verðlagshækkun að ræða, sem er þó það mikil að ég hefði viljað sjá að það stæði frekar í stað. En hefur hv. þingmaður kynnt sér skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði á síðasta ári um áhrif þessa gjalds, sérstaklega á landsbyggðina? Þar kemur fram að gjaldið bitnar sérstaklega á tekjulægra fólki og einnig landsbyggðinni. Þetta er mjög athyglisverð skýrsla sem hefur fengið allt of litla athygli að mínu mati. Mig langar að heyra viðbrögð hv. þingmanns hvað það varðar, hvernig hann lítur á þá skýrslu, hvort hann hafi kynnt sér hana og hvort það sé þá ekki í ljósi þess eðlilegt að við myndum reyna að stefna að því að lækka þetta gjald í áföngum? Það hefur auk þess ekki komið nægilega vel fram að mínu mati hvaða árangri þetta gjald skilar yfir höfuð þegar kemur að baráttunni við loftslagsmálin.