152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil hér við 2. umr. koma inn á nokkur atriði. Ég vil annars vegar gagnrýna og hins vegar koma inn á atriði sem ég held að væri skynsamlegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki sér stund til að skoða, sérstaklega milli 2. og 3. umr. Ég ætla að byrja á því sem snýr að ívilnunum vegna tengiltvinnbíla. Eins og fram hefur komið í umræðunni er horft til þess að þær ívilnanir falli niður, eins og ráð var fyrir gert við samþykkt sambærilegra laga fyrir ári síðan, annars vegar nú við áramót og hins vegar þegar 15.000 bíla marki hefur verið náð. Með því er ætlunin að hraða þeirri þróun að heimili landsins fari í 100% rafmagnsbíla í stað þess að nýta sér tengiltvinnbíla.

Í þessu samhengi virðist að engu marki litið til þess að stórkostleg breyting hefur orðið á tengiltvinnbílum á undanförnum árum. Við erum nú í því sem er kallað þriðja kynslóð tengiltvinnbíla, þar sem algengt viðmið er um 80–90 km á rafmagnshleðslu hvað akstursgetu varðar. Það þýðir raunverulega að flestöll dagleg notkun bifreiða er á rafmagni fyrir þá sem það vilja og geta, en lengri túrar eru mögulegir á annaðhvort bensín- eða dísilhluta vélarinnar.

Að stjórnvöld ætli að reyna að hraða þeirri þróun með þessari aðgerð mun hafa þau neikvæðu áhrif að líkur eru á að tengiltvinnbílar detti út úr jöfnunni. Tengiltvinnbílar hafa nefnilega þau jákvæðu áhrif til viðbótar við það augljósa, að nota rafmagn til að knýja bílinn áfram, að þeir venja fólk við notkun rafmagnsbíla, sem er þá vonandi næsta eða þarnæsta skref hjá hverri fjölskyldu. Fólk venst því að stinga bílnum í samband og allt verður þetta liðlegra, þetta hraðar uppbyggingu hleðslustöðva og þar fram eftir götunum við fjölbýlishús og einbýlishús. En ég er hræddur um að það hægi á þeim hluta ef við ýtum eingöngu 100% rafbílum inn með ívilnandi lausn.

Mig langar í þessu samhengi að nefna gögn sem ég fékk frá Samgöngustofu á Þorláksmessu. Á þeim tíma voru skráðir 10.315 rafbílar landið um kring. Það er skemmst frá því að segja að þeir eru eiginlega allir hér í kringum höfuðborgina. Það er þannig að í öllu Norðvesturkjördæmi, öllu Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, að Reykjanesskaga undanskildum, eru samanlagt 17,7% þessara bifreiða. 82,3% eru í Reykjavík, kraganum og á Reykjanesskaga. Ég vil bara benda hv. þingmönnum á að það er ástæða fyrir því. Hún er sú að innviðirnir eru ekki með sama hætti víða úti um land. Hvað öryggi varðar vill fólk geta verið með tengiltvinnbíl þannig að það sé trygg orka á bifreið út frá bensín- eða dísilhluta vélar, eða bensín- eða dísilvél. Það er nokkuð sem verður ekki leyst á þeim dögum sem eru til ráðstöfunar fram að áramótum.

Ég held að við ættum hreinlega, með því að samþykkja breytingartillögu, sem hugsanlega kann að koma fram milli 2. og 3. umr., að framlengja verkefnið eins og það liggur til eins árs til viðbótar við það sem nú er. Það er minna en Bílgreinasambandið hefur lagt til að sé sá tími sem sé í rauninni nauðsynlegur til þess að tækniþróun og kerfið verði tilbúið til að taka við auknum fjölda 100% rafbíla. Ég held að það sé líka sá tími sem sérstaklega landsbyggðin þarf til að tryggja að innviðir séu orðnir til staðar í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að þetta sé raunhæft. Við megum ekki ganga fram með þeim hætti hvað þessar ívilnanir varðar að kippt sé úr sambandi lausninni sem er helst notuð á stærstum hluta landsins, ekki fjölmennasta hluta heldur stærstum hluta landsins. Það er einhver ástæða fyrir því að ekki eru nema 17,7% þessara bifreiða, 100% rafmagnsbifreiða, skráð alveg frá Akranesi um allt Vesturland, Vestfirði, Norðurland, Austfirði, Suðurland og alla leið á Selfoss — mig minnir að það hafi verið viðmiðið, að Selfoss og Vestmannaeyjar hafi verið innan talningarinnar hvað suðurhlutann varðar — 17,7%. Það er af því að 100% rafmagnslausnin er ekki nægjanlega trygg enn sem komið er. Það er alveg fráleitt í mínum huga að við ætlum að ganga þannig frá skattlagningu á innflutning þessara bifreiða þannig að landsbyggðin hljóti af því enn eitt höggið hvað varðar heildargjaldtöku af umferð, og er nú nóg fyrir. En bara til ítrekunar, 82,3% rafmagnsbíla, eins og staðan var á Þorláksmessu, eru í Reykjavík, Kraganum og á Reykjanesskaga.

Ég held að þetta tiltekna atriði hafi ekki komið til neinnar skoðunar innan nefndarinnar. Ég vil beina því til formanns hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ef hv. formaður heyrir til mín, að skoða þetta atriði sérstaklega því að það skiptir máli. Tekið er fram í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, með leyfi forseta, að „mikilvægt sé að beina áherslum í orkuskiptum að fjölgun hreinna raforkubifreiða og uppbyggingu innviða vegna þeirra“.

Gerum það, gerum þá bara það. Við erum ekki að gera það með þeirri reglubreytingu sem hér liggur fyrir, alls ekki. Svo segir hér, með leyfi forseta, í nefndaráliti fulltrúa meiri hluta í efnahags- og viðskiptanefnd:

„Að auki bendir meiri hlutinn á að gildandi ívilnunarkerfi hefur verið heimilað af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), breytingar á ákvæðinu krefðust því frekara samráðs við stofnunina.“

Eigið þið þá bara það samstarf. Þetta getur ekki verið alvöruvandamál. Það er fullt ráðuneyti af fólki sem getur tekið þetta verkefni að sér. Það getur ekki verið vandamál við það að framlengja svona skynsamlega aðgerð, skynsamlega nálgun, að þurfa að tala við einhverja kontórista hjá eftirlitsstofnun EFTA. Það verður bara að gera það. Þetta er það sem ég vildi segja um tengiltvinnbíla og ívilnanir þeim tengdar á þessum tímapunkti.

Næst langar mig til að fara yfir í verkefnið Allir vinna. Það velkist enginn í vafa um það, þegar umsagnir eru skoðaðar, ef við horfum sérstaklega til umsagnar Samtaka iðnaðarins, sem eru þau samtök sem best þekkja til stöðu á markaði í þeim verkefnum sem njóta ívilnana vegna verkefnisins Allir vinna, fyrir utan auðvitað öll heimili og sveitarfélög landsins, samkvæmt reglunum eins og þær eru núna, að það er einhver hringlanda- og ruglandaháttur í þessu. Það eru komnar þrjár dagsetningar innan ársins þar sem hluti ívilnananna fellur niður að hluta eða öllu leyti. Rökin eru sennilega þau að þetta eigi að gefa fólki og fyrirtækjum tækifæri til að bregðast við. Það er nú bara þannig að meira og minna allar ákvarðanir í mannvirkjageiranum taka langan tíma. Sveitarfélög hrista ekki fram úr erminni ýmsar framkvæmdir bara þannig að þær klárist fyrir þá dagsetningu sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd dettur til hugar, eins og t.d. hér 1. september 2022, 31. ágúst 2022, 1. janúar 2022. Það er stutt í 1. janúar. Menn gera ekki mikið á þeim virku dögum sem eru þar til sá hluti fellur úr gildi.

Auðvitað á bara að framlengja þetta út árið, taka árið 2022 í það að skoða virðisaukaskattsskyldu og gjaldheimtu af mannvirkjageiranum í heild sinni, eins og er beinlínis sagt að sé planið hjá hæstv. fjármálaráðherra, eins og segir hér í nefndarálitinu, þótt ég finni það ekki í fljótu bragði. Þar kemur fram að uppi séu sérstök áform um að endurskoða virðisaukaskattskerfið hvað mannvirki varðar á árinu 2022. Væri ekki skynsamlegt að klára það? Ég held að það væri miklu skynsamlegra en að vera hér með frumvarp sem hefur þrjá lúkningardaga hvað varðar hluta ívilnunar eða alla ívilnun innan ársins. Þetta er allt alveg óskaplega ruglingslegt og fullkomlega óþarft. Ég er ekki búinn að sjá breytingartillögu fulltrúa sem hv. þm. Flokks fólksins nefndi í ræðu sinni hér rétt áðan varðandi það að framlengja þessar ívilnanir út árið 2022, en ef þær eru eins og mér heyrðist þeim vera lýst, mun Miðflokkurinn styðja þær breytingartillögur fulltrúa Flokks fólksins í efnahags- og viðskiptanefnd.

Næst langar mig að koma inn á atriði sem snýr að frítekjumarki vegna atvinnutekna þeirra sem fá greiddan ellilífeyri. Hér er lagt til að frítekjumarkið fari úr 1.200.000 kr. á ári upp í 2,4 milljónir kr., hækki sem sagt um 100%. Það er ágætt skref og nauðsynlegt en allt of lítið eða þau þyrftu að vera fleiri. Ég átti orðastað við hæstv. fjármálaráðherra þegar ráðherrann mælti fyrir þessu frumvarpi og spurði hvort eitthvert mat hefði verið lagt á þær tekjur sem sköpuðust hjá ríkissjóði við þessar breytingar, þ.e. að ýta undir atvinnuþátttöku þeirra sem njóta ellilífeyris. Svarið kom mér nokkuð á óvart en hefði kannski ekki átt að gera það, en það hafði ekki verið lagt neitt mat á það. Það er bara lagt mat á reiknuð útgjöld, útgjöld sem eru leidd út samkvæmt lögum um opinber fjármál, en lög um opinber fjármál eru þeim annmarka háð hvað þetta atriði varðar að þar er bara skoðuð önnur hlið peningsins. Þar er einvörðungu horft til útgjalda ríkissjóðs, sem eru að mörgu leyti reikningsleg, en það er ekki horft á tekjuaukann sem af þessu hlýst. Það er bara litið þannig á að þeir sem fara og afla sér tekna með atvinnuþátttöku stingi þessu öllu undir koddann, það verði engar afleiddar aðgerðir eða ákvarðanir út frá auknum ráðstöfunartekjum. Það er auðvitað fullkomin della og ef það er skákað í því skjóli að lög um opinber fjármál uppáleggi mönnum að reikna þetta með þessum hætti þá þarf að breyta lögum um opinber fjármál því að þetta er auðvitað bara vitleysa. Það að taka ekki tillit til þessara þátta, til afleiddu áhrifanna, tekjuauka ríkissjóðs vegna breytinga sem þessara, skekkir alla myndina og orsakar það að við þingmenn tökum verri ákvarðanir en annars væri.

Ég gat ekki heyrt að í efnahags- og viðskiptanefnd hefði þetta verið skoðað að neinu marki, kannski eðlilega ekki á meðan fjármálaráðuneytið og hæstv. fjármálaráðherra telja ekki ástæðu til að taka tillit til þessara afleiddu áhrifa. Þetta sjáum við svo oft í umræðu um frumvörp hér í þinginu. Það er ekki tekið tillit til afleiddra áhrifa lagasetningar og ég ítreka að ef það er staðan, að við lítum fram hjá afleiddum áhrifum vegna þess að lög um opinber fjármál leggja okkur málin þannig upp í hendur, þá verðum við að breyta lögunum eða setja inn sérstakan kafla þar sem mál sem þessi eru rýnd og kafað ofan í þau og þau greind utan þess ramma sem lög um opinber fjármál skammta okkur, ef ekki er vilji til að breyta þeim lögum.

Virðulegur forseti. Þetta er nú það sem ég vildi fá að koma inn á í þessari ræðu. Ég vil bara rifja upp í lokin að ég held að við séum að gera mistök hvað það varðar að afnema heimild til skattaívilnana tengiltvinnbifreiða. Ég bið hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða það einu sinni til milli 2. og 3. umr., það væri einnar messu virði þótt ekki væri nema bara fyrir landsbyggðarhallann í málinu eins og það liggur fyrir núna, þar sem hér um bil allir 100% rafbílar eru hér á suðvesturhorninu.

Þetta er að gerast og ég vil í samhengi við þetta líka minnast á það sem snýr að Allir vinna. Það að fella niður að fullu strax nú um áramót endurgreiðslu vegna viðhalds og vinnu við bifreiðar er að gerast á sama tíma og með einhverjum furðulegum hætti, einhverri hræðslu við að innleiða með skynsamlegum hætti reglur sem koma frá Brussel. Þá er staðan orðin þannig að menn horfa til þess að það verði miklu meira magn bifreiða kyrrsett fullkomlega að óþörfu út af atriðum sem hafa ekkert með öryggi bifreiðar að gera, miklu hærra hlutfall bifreiða verði kyrrsett á skoðunarstað hér eftir en hingað til. Á sama tíma telur þessi ríkisstjórn skynsamlegt að fella niður þessa ívilnun. Þetta hefur væntanlega verið talið til skattastyrkja, þess furðulega hugtaks sem fengið hefur sjálfstætt líf í fjárlögum á grundvelli laga um opinber fjármál þar sem hugtakið þýðir allt annað en það er notað um í dag.

Ég vil beina því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, og sérstaklega meiri hlutans þar, að skoða það með opnum augum að nálgast þetta með skynsamlegri hætti en gert er í því nefndaráliti sem hér liggur fyrir, enda þóttu mér svör hv. þm. Guðrúnar Hafsteinsdóttur miklu betri en framsagan þar sem hv. þingmaður fór yfir nefndarálit meiri hluta. Svör hv. þingmanns sýndu miklu meiri skilning á málinu en nefndarálitið. Ég vona því að það sé einhver vilji til þess að skoða þessi þrjú mál sem ég nefni hér sérstaklega og vil ég nefna að við fulltrúar Miðflokksins munum leggja fram breytingartillögur er þessi atriði varðar ef ekki er vilji til að koma neitt til móts við þau sjónarmið sem hér eru sett fram.