152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil við upphaf þessarar atkvæðagreiðslu vera með almenna yfirlýsingu fyrir hönd þingflokks Miðflokksins þess efnis að þingflokkurinn mun að venju greiða atkvæði gegn öllum gjalda- og skattahækkunum sem fram koma í þessu frumvarpi með þeirri einu undantekningu að við munum styðja við breytingu á gjaldtöku er snýr að sóknargjöldum í ljósi þess mikla uppsafnaða halla sem er á þeim samningi sem þar er undirliggjandi gagnvart kirkjunni. En að öðru leyti greiðum við atkvæði gegn öllum gjaldahækkunum og öllum skattahækkunum sem hér eru tilgreindar. Og af því að ég hef nokkrar sekúndur þá vil ég nefna að það veldur mér miklum vonbrigðum í hvaða farvegi mál er tengist ívilnunum tengiltvinnbíla virðist liggja og ég vona að fulltrúar meiri hlutans í hv. efnahags- og viðskiptanefnd geri bragarbót þar á milli 2. og 3. umr.