152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara yfir allar þær ágætu breytingar sem lagðar eru til í þessum tekjubandormi en vek þó athygli á einni sérstaklega sem á rætur að rekja til mjög ítarlegrar vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili og miðaði að því að endurskoða tekjuskattskerfið þannig að upp var tekið þriggja þrepa skattkerfi, ótvíræð aðgerð í átt til jöfnuðar í samfélaginu með því að gera skattkerfið réttlátara og jafnara. Nú má segja að lokahnúturinn sé bundinn í þeirri vegferð með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til sem miða við það að uppfærsla skattleysis- og þrepamarka verði miðuð við þróun vísitölu neysluverðs að viðbættum 1% framleiðsluvexti á ári. Þetta er alveg gríðarlega mikilvæg kerfisbreyting til að koma í veg fyrir raunskattskrið þar sem við höfum séð þá þróun í sögunni yfirleitt að með því að skattmörkin og þrepamörkin hafa ekki fylgt sömu lögmálum hefur skattbyrði lágtekjufólks aukist í raun. Nú er bundinn endir á þá þróun með skynsamlegri breytingu sem er vel ígrunduð og tryggir um leið sjálfvirka sveiflujöfnun tekjuskattskerfisins. Og af því að hér ræða hv. þingmenn um jöfnuð þá er þetta ein mikilvægasta jöfnunaraðgerðin sem þetta frumvarp felur í sér.