152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:56]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Það hlýtur að muna um 6 milljarða í ríkissjóð, ekki síst á tímum sem þessum, og ef einhverjir eru aflögufærir og rúmlega það eru það bankarnir sem hafa hagnast um tugi milljarða á þessu ári eins og á hverju ári frá kennitöluflakkinu eftir hrun, auk þess að hafa greitt út tugi milljarða í arð til fjárfesta sinna á þessu ári einu í miðjum heimsfaraldri og alheimskreppu. Það getur ekki verið til of mikils mælst að þannig fyrirtæki borgi skatt upp á 0,376%. Látum þá sýna smá samfélagslega ábyrgð. Ef bankarnir hækka vexti, sem virðist vera óttinn hjá mörgum, verður það ekki vegna bankaskatts sem nær ekki 0,4%. Lækkun bankaskatts hafði engin áhrif til lækkunar vaxta, þar höfðu aðrir þættir áhrif. Bankarnir munu hækka vexti fái þeir tækifæri til, en bankaskattur mun ekki breyta neinu þar um. Fyrirtæki með tugmilljarða hagnað hafa enga ástæðu til að hækka álögur á viðskiptavini sína og það er okkar og eftirlitsaðila að fylgja því eftir. Krefjum þá um samfélagslega ábyrgð.