152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:58]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Ég mæli með því að átakið Allir vinna standi allt næsta ár en ekki bara hluta ársins. Það er ljóst að verðbólga mun verða töluverð á næsta ári og því munu margar fjölskyldur sjá sig tilneyddar til að draga saman seglin og minnka útgjöld. Það er því verulega hætt við að þá muni ýmsar framkvæmdir, oft nauðsynlegar, sitja á hakanum. Það má því gera ráð fyrir samdrætti hjá iðnaðarmönnum sem sinna viðhaldi, verði ekkert að gert. Endurgreiðsla virðisaukaskatts allt árið myndi virka hvetjandi á heimili sem annars myndu jafnvel halda að sér höndum, auk þess að hamla því að fólk freistist til að kaupa svarta vinnu til að spara sér útgjöld. Framlenging Allir vinna myndi koma bæði iðnaðarmönnum og einstaklingum til góða á tímum sem fyrirsjáanlegt er að verða mörgum mjög erfiðir. Það er því nauðsynlegt að tryggja að úrræðið fái að standa út árið á meðan við vöxum út úr kreppunni, enda var metfjöldi smita í gær og aðstæður í raun ekkert öðruvísi en þær voru þegar úrræðið var sett á. Þannig munu allir vinna, eins og lagt var upp með.