152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Minni hlutinn vakti athygli á því við 2. umr. að 2 milljarða kr. gat væri í rekstri Landspítalans og líka væri gat þegar kæmi að rekstri Sjúkrahússins á Akureyri vegna þess að fjármagn sem á að mæta öldrun og fjölgun þjóðar féll niður þrátt fyrir að öldrunin og fjölgunin væri víst óhjákvæmileg. Það kom fram við 2. umr. að þær upplýsingar hefðu borist formanni hv. fjárlaganefndar að fjármagn væri til á lið heilbrigðisráðuneytisins sem gæti mögulega mætt þessu gati og það yrði skoðað. Ég vildi því beina þeirri spurningu til hv. formanns fjárlaganefndar hver staðan væri á þessu máli, hvort þessu gati yrði lokað.