152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur stigið fram í fjölmiðlum í þessari viku og boðað aðgerðir til stuðnings veitingageiranum. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við að fara eigi í stuðningsaðgerðir, sem eru bæði nauðsynlegar og brýnar, heldur vinnubrögðin í kringum þetta. Eftir því sem ég kemst næst þá er reiknað með að boðaðar aðgerðir kosti á bilinu 1,5 til 3 milljarða og mér sem nýjum þingmanni finnst það sérstakt að verið sé að lofa slíkum útgjaldaauka við nýsamþykkt fjárlagafrumvarp án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við þingið sem fer með fjárveitingavaldið. Þessi vinnubrögð eru manni óskiljanleg en ræðum samt aðgerðirnar núna.

Það mun skipta miklu máli hvernig slíkur styrkur verður útfærður og ekki er víst að boðaðar aðgerðir nýtist öllum þeim sem þurfa á stuðningi að halda. Hlutabótaleið nýtist t.d. ekki þeim fyrirtækjum sem misst hafa starfsmenn eða þar sem stór hluti starfsmanna kemst ekki til vinnu vegna einangrunar eða sóttkvíar. Þá þarf einnig að huga að þeim veitingastöðum sem eru með stutta eða enga rekstrarsögu og hafa því ekki rétt viðmið eða bara alls engin viðmið. Nú þurfa að koma til einhvers konar viðspyrnustyrkir sem hjálpa þessum fyrirtækjum að halda sjó svo að þau geti ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir og undirbúning fyrir sumarið.

Virðulegur forseti. Það styttist vonandi í að við náum tökum á þessum faraldri og því skiptir máli að þessi fyrirtæki fái nauðsynlegan og réttan stuðning til að enginn drukkni í fjöruborðinu, eins og einn veitingamaður orðaði það svo nöturlega við mig.